15.05.1929
Neðri deild: 69. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2678 í B-deild Alþingistíðinda. (1481)

140. mál, lánsheimild fyrir ríkisstjórnina

Fjmrh. (Einar Árnason):

Út af fyrirspurn hv. 1. þm. Skagf., hvort tilboð liggi fyrir um lán, get jeg svarað því, að ekkert tilboð liggur nú fyrir. Hvað því viðvíkur, hvenær stj. hugsi sjer að taka þetta lán, er það að segja, að hún hefir ekki búist við að gera það bráðlega, meðfram vegna þess, að tími til þess að taka lán erlendis virðist óheppilegur sem stendur, en miklar líkur eru til þess, að betri kjör fáist síðar. Að vísu er sá tími takmarkaður, sem hægt er að bíða með alt þetta lán, en jeg geri mjer von um, að hægt verði að starfrækja það, sem hjer er gert ráð fyrir og bráðast kallar að, þótt eitthvað dragist með lántökuna.

Þá mintist hv. þm. á það, að ekki væri rjett að taka lán til allra þeirra framkvæmda, sem getið er um í frv. Það er ekki meiningin að taka þetta lán alt í einu, en annars er ekkert ákveðið um það. Eldri lánsheimildirnar, frá 1919, um brúargerðir og húsagerðir ríkisins, tók jeg aðallega upp til þess að hafa þær með öðrum lánsheimildum, án þess að jeg hafi sjerstaklega hugsað um að taka lán til þess.

Ennfremur mintist hv. þm. á vaxtagreiðslur Byggingar- og landnámssjóðs, Búnaðarbankans og Landsbankans. Hvað Byggingar- og landnámssjóð snertir get jeg ekki gefið fullnægjandi svör, en jeg hefi hugsað, að því láni, sem yrði tekið, yrði ekki eytt á einu eða tveimur árum, heldur notuð 1 milj. kr. á ári.

Í lögum um Byggingar- og landnámssjóð er gert ráð fyrir því, að ríkissjóður leggi fram 200 þús. kr. á ári. Þetta hefi jeg skilið þannig, að þessar 200 þús. kr. ættu að ganga til þess að greiða mismuninn á útlánsvöxtum sjóðsins og vöxtum af því láni, sem tekið yrði handa honum. Mjer fanst hv. þm. gera ráð fyrir því, að lánið yrði tekið til 20 ára. Þetta er alls ekki ráðið. Hitt er líklegra, að lánið yrði tekið til eins langs tíma og gert er ráð fyrir að sjóðurinn sjálfur láni út fjeð, svo að afborganir á útlánum sjóðsins geti að nokkru staðið straum af afborgunum af heildarláninu.

Um Búnaðarbankann get jeg ekkert sagt að svo stöddu, en í lögunum er það heimilað, að stj. geti frestað framkvæmd veðdeildar bankans. Annars býst jeg ekki við því að geta gefið nein svör um meðferð Búnaðarbankans við umr. þessa máls, vegna þess hve stutt er um liðið síðan það mál var afgr., og hæstv. forsrh. hefir ekki tekið neinar sjerstakar ákvarðanir um það mál við mig.