15.05.1929
Neðri deild: 69. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2680 í B-deild Alþingistíðinda. (1482)

140. mál, lánsheimild fyrir ríkisstjórnina

Magnús Guðmundsson:

Hæstv. fjmrh. hefir svarað fyrirspurn minni þannig, að ekkert tilboð um lán liggi fyrir nú, og skil jeg það svar hans þannig, að tilboð hafi legið fyrir áður, en sje fallið niður.

Jeg hygg það rjett vera, að óhentugur tími sje nú til lántöku erlendis, og mun eflaust betra að draga að taka lánið, ef hægt er. Það gladdi mig að heyra hæstv. ráðh. undirstrika það, að tilgangurinn væri ekki sá, að taka lán til þess að fullnægja öllum lánsheimildunum, og þótt framkvæmdirnar sjeu mismunandi aðkallandi. skal jeg ekki að fyrra bragði vantreysta hæstv. ráðh. að velja rjett úr.

Viðvíkjandi því, er hæstv. ráðh. sagði, að lána ætti 1 milj. kr. á ári úr Byggingar- og landnámssjóði, verð jeg að segja, að mjer finst óhentugt að taka ekki alt lánið í einu, því ekki er hægt að búast við öðru en að allmikið vaxtatap verði. Ennfremur vil jeg geta þess, að er jeg nefndi 20 ár í sambandi við lántökuna, var það aðeins tekið sem dæmi, en alls ekki að jeg ætlaði að setja stj. neinar reglur um það. Annars hygg jeg, að tíminn sje nokkuð mismunandi hvað lánsheimildirnar snertir. T. d. gæti ekki komið til mála að taka lán til skipakaupa til 42 ára.

Þá sagði hæstv. ráðh., að þær 200 þús. kr., sem ríkissjóður leggi fram árlega, eigi að ganga til þess að greiða mismuninn á útlánsvöxtum sjóðsins og vöxtum af því láni, sem tekið yrði handa sjóðnum. Það má vel vera, að þetta sje meiningin; en þetta kemur ekki fram í lögunum, og fellur mjer vel skýring hæstv. ráðh. En viðvíkjandi því, að sjóðurinn eigi líka að greiða afborganir, skilst mjer, að afleiðingin hljóti að verða sú, að ekki verði lánað fje úr sjóðnum nema í 5 ár. Næstu 37 ár væri svo verið að draga inn fjeð, en af þessu leiðir, að starf sjóðsins stöðvast alveg. Það sjá allir, að með 5 milj. kr. komumst við skamt á veg með að byggja upp sveitir landsins. Öðru máli er að gegna, ef 5 miljónir eru altaf í veltunni.