16.05.1929
Neðri deild: 70. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2688 í B-deild Alþingistíðinda. (1489)

140. mál, lánsheimild fyrir ríkisstjórnina

Ásgeir Ásgeirsson:

Það er vegna þess, að hæstv. fjmrh. var ekki viðstaddur ræðu hv. 1. þm. Reykv., að jeg kvaddi mjer hljóðs.

Hv. þm. var mjög áhyggjufullur út af þessari lántöku. Lágu til þess aðallega tvær orsakir. Sú fyrri var, að lántakan mundi leiða af sjer „inflation“, en hin ástæðan var, að hún mundi hafa „deflation“ í för með sjer. (MJ: Alveg rjett). M. ö. o.: Í fyrsta lagi hlýtur krónan að hækka og í öðru lagi hlýtur hún að lækka. Þannig er nú röksemdaleiðsla hv. þm. Mál sitt reynir hv. þm. að sanna með því að ganga út frá sem staðreynd, að bæði ríkisstj. og Landsbankinn fari eins vitleysislega að ráði sínu og frekast er hugsanlegt. Vitstola manni væri einum trúandi til þess að fara að eins og hv. þm. gerir ráð fyrir, að fjármálavöldin geri í sambandi við þessa lántöku. En sæmilega greindum manni er innan handar að stýra fram hjá þeim hættum, sem hv. þm. taldi upp og talaði um af svo miklum fjálgleik.

Hv. þm. sagði meðal annars, að ef þessu láni væri veitt inn í landið, myndi það leiða af sjer gífurlegt framboð á gjaldeyri í landinu, svo að bankastjórnin hlyti að hækka innlenda gjaldeyrinn í verði. En nú er það auðsætt, að ef búið er að taka ríkislán, þá þýðir ekkert fyrir stj. eða bankana að spyrna við því, að sá gjaldeyrir flytjist inn í landið, að svo miklu leyti sem hann er til þess ætlaður, enda myndi fáum bankastjórnum detta sú fjarstæða í hug að fara að breyta genginu fyrir þær sakir. Ennfremur hjelt hv. þm., að bankinn myndi tapa alt að tveim milj. kr. á því að yfirfæra lánið, ef krónan hækkaði. En sannleikurinn er, að bankinn þarf ekki að tapa einum eyri. Ef nokkur tapar, þá yrði það lántakandinn, ríkissjóður, en ekki bankinn. Landsbankinn er einungis milliliður. Hans eina áhætta er, að honum ekki takist á sínum tíma að útvega þá erlendu peninga, sem þarf til þess að afborga ríkislánið. En vitanlega eru slíkar afborganir svo seinar og tregar, að ekki kæmi til mála, að bankinn yrði í vandræðum með að útvega erlendan gjaldeyri til þess að greiða þær með. Þess vegna mun hvorki bankastj. Landsbankans nje gengisnefnd láta sjer detta í hug að hækka gjaldeyrinn, til þess að sporna við því, að ríkislánið renni inn í landið.

Þá sagði hv. 1. þm. Reykv. það einnig, að þetta væri sama og að stýfa gjaldeyrinn endanlega. Það er að vissu leyti rjett. Allar slíkar „transaktionir“ styðja að festingu gjaldeyrisins, og þessi lántaka er engin undantekning í því. Að vísu er hjer um öflugri festingarráðstöfun að ræða en við höfum áður þekt, enda er þetta lán stærra en áður hefir verið tekið.

Hv. þm. fer mjög villur vegar, er hann ætlar, að allir þessir peningar renni inn í landið. Því fer fjarri. Hv. þm. sagði, að Landsbankinn myndi veita þeim hluta lánsfjárins, sem kæmi í hans hlut, sem nýjum lánum til atvinnuveganna. Af því myndi leiða snöggan vöxt og óeðlilegan uppgang í atvinnulífinu. En hvað segir hv. þm. um það, ef Landsbankinn gerði sjer hægt um hönd og veitti ekki fjenu inn í atvinnulífið, heldur ljeti það ganga til greiðslu á erlendum skuldum? Ef bankinn tæki þann kostinn, sem vel getur komið til mála, þá kæmi þetta lánsfje aldrei inn í landið, og hefði því ekki þær verkanir, sem hv. þm. lýsti svo átakanlega. Þessar ástæður hv. þm. eru orðaflaumur einn og á engum rökum bygðar. Þess er skemst að minnast, að þessi sami hv. þm. fjargviðraðist á síðasta þingi út af því, hvað þetta stofnfje, 3 milj. kr., væri lítið. Nú er þetta sama stofnfje, þó minna sje, orðið að stórhættu fyrir þjóðfjelagið. Sannleikurinn er vitanlega sá, að þetta stofnfje á að verða til þess að styrkja bankann, og það mun gera það, ef vel er á haldið. En hv. þm. gerir hjer sem oftar ráð fyrir því einu, að óskynsamlega sje með farið og að framkvæmdir allar takist óhöndulega. En hv. þm. hefir ekkert leyfi til þess að ganga út frá þessu sem gefnu og álykta á þeim grundvelli. Allar ráðstafanir þingsins eru með þeim fyrirvara, að framkvæmdin verði skynsamleg. Það er skilyrði, sem er þegjandi undanskilið öllum ályktunum. Auk þess skal jeg benda hv. þm. á það, að minst af því fje, sem fer til byggingar strandvarnarskipsins og síldarverksmiðjunnar og til útvarpsins og fleiri verklegra fyrirtækja, rennur inn í landið, nema þá aðeins að forminu til. Geta því tæplega hlotist miklar verðlagsbreyt. af því fje, og engu máli skiftir það, hvort það efni og annað, sem kaupa þarf erlendis vegna hinna verklegu framkvæmda innanlands, er greitt gegnum Landsbankann eða erlenda banka, ef til þess er varið hluta af þessu umrædda láni. Að hjer sje sjerstök hætta á „deflation“, er því fjarri öllum sanni. Slík lántaka mun heldur styðja að því að halda verðlagi uppi, og þarf því að sjálfsögðu allrar varúðar, því eins og sakir standa er verðlagið þegar fullhátt. Það er því sönnu nær að tala um „inflations“-hættu í þessu sambandi; í því er nokkurt vit, en ekkert í hinu. Enda má hv. þm. skilja það, hve fjarstætt það er að gera ráð fyrir tveim gagnstæðum hættum í einu, hættum, sem útiloka hvor aðra.

Hinu vil jeg einnig mótmæla, að þótt þetta lán geti orðið til þess að auka kaupgetu landsmanna, þá sje ástæða til að kalla það falska kaupgetu, eins og hv. 1. þm. Reykv. gaf í skyn. Slík kaupgeta á ekkert skylt við þá kaupgetu, sem myndast af völdum mikillar seðlaútgáfu í landinu. Þetta er ekkert sambærilegt. Hjer er um raunverulega peninga að ræða; áhætta er engin, hvorki með yfirfærslur nje ill áhrif á atvinnulífið, svo framarlega að það takist að skapa í landinu raunverulegt verðmæti fyrir þessa peninga, verðmæti, sem standi undir láninu.

Að lokum vil jeg leiða athygli hv. þdm. að því, að það, sem hjer er um að ræða, er alls ekki ný lánsheimild, heldur gamlar lánsheimildir teknar saman í eitt. Í rauninni er hjer um algert formsatriði að ræða. Er því síst ástæða fyrir hv. þdm. að rísa nú upp öndverðir og láta svo sem hjer sje á ferðum ný ríkislántaka.

Jeg hefi nú talað þessi fáu orð vegna þess, að hæstv. fjmrh. var ekki viðstaddur þegar hv. 1. þm. Reykv. flutti ræðu sína, og sömuleiðis vegna þess, að hv. þm. vjek ræðu sinni að gengismálunum og kendi þar nokkurs misskilnings, sem jeg hefi nú gert mjer far um að leiðrjetta.