16.05.1929
Neðri deild: 70. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2692 í B-deild Alþingistíðinda. (1490)

140. mál, lánsheimild fyrir ríkisstjórnina

Magnús Guðmundsson:

Aðeins fáein orð út af því, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði um þetta mál. Mjer skildist, að hann gæti ekki fylgt frv. þessu, af því að af lántökunni leiddi fyrst gengishækkun, og svo lækkun á eftir. Hvað þetta atriði snertir, þá get jeg tekið undir það með hv. þm. V.-Ísf., að hægt sje að halda þannig á, að ekki sje hætta á slíku. Jeg mun því greiða atkv. með frv., af því að jeg vil ekki bregða fæti fyrir þær framkvæmdir landbúnaðinum til handa, sem lán þessi eiga að ganga til, a. m. k. að nokkuð miklu leyti. Hv. 1. þm. Reykv. vil jeg segja það, að lántaka sem þessi getur vitanlega haft áhrif á gengi peninganna, en jeg vil ekki láta það standa fyrir öðrum framfaramálum, þó að gengismálið sje ennþá ekki leyst. Og jeg verð að segja, að mjer þykir það illa farið, að það skuli ekki hafa verið leyst á þessu þingi, en jeg vil þó ekki bæta gráu ofan á svart með því að stöðva mikið af framkvæmdum í landinu.