16.05.1929
Neðri deild: 70. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2698 í B-deild Alþingistíðinda. (1493)

140. mál, lánsheimild fyrir ríkisstjórnina

Ásgeir Ásgeirsson:

Jeg hefi aldrei játað, að nein hætta sje á gengishækkun, því hækkun gengis er sjálfráð athöfn valdhafanna og gengishækkun er nú eins og komið er svo óskynsamleg, að enginn núv. valdhafi lætur sjer detta í hug að gera slíka ráðstöfun. En ef einhver ljeti sjer detta í hug að hækka gjaldeyrinn í tilefni af erlendri lántöku, þá ætti auðvitað sú hækkun að framkvæmast áður en þetta fje berst inn í landið, og þá yrði aðstaðan önnur en hv. 1. þm. Reykv. hjelt fram.

Hv. þm. hjelt því fram, að venjulega væru tekin lán til þess að hækka gengið. Þetta er rangt. Það eru oft tekin lán til þess að varðveita þá skráningu, sem búið er að framkvæma, sem sagt, til að hindra lækkun, en alls ekki til að hækka gengið.

Að öðru leyti finn jeg ekki ástæðu til að svara hv. þm., en mjer fanst hann þó gera alt of mikið úr þeirri verðlagsbólgu, sem af þessu fje gæti leitt, því að mikið af fjenu hefir engin áhrif á verðlag í landinu.

Hitt líkaði mjer vel, að heyra hv. 1. þm. Reykv. segja, að ef lánsheimildin yrði samþ., hætti hann að vera einn í þeirra hópi, sem tala um hækkun krónunnar. En það hefði óneitanlega farið betur á því, að hann hefði sagt þetta við 1. umr. um myntlagafrv. í vetur, þegar hann flutti sína ræðu um gengishækkun. Allar þessar lánsheimildir, sem hjer eru samandregnar í eitt frv., voru þá í lögum. Aðstaðan var þá alveg sú sama og nú, og því jafnrík ástæða þá fyrir hv. þm. til að hverfa frá sinni hækkunarstefnu eins og nú.