26.04.1929
Neðri deild: 54. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 308 í B-deild Alþingistíðinda. (151)

5. mál, rannsóknir í þarfir atvinnuveganna

Hákon Kristófersson:

Hvað þetta mál snertir eru víst allar umr. óþarfar og gagnslitlar úr þessu, en jeg get þó ekki látið hjá líða að lýsa yfir vanþóknun minni og trúleysi á því, að þetta komi að nokkrum notum fyrir landbúnaðinn. Jeg er hræddur um, að undirstaða málsins sje sú, að hæstv. stj. vilji með þessu stofna embætti fyrir einhverja ákveðna menn, og það sje aðalatriðið fyrir henni, en ekki umhyggjan fyrir landbúnaðinum. Jeg vildi í þessu sambandi beina þeirri fyrirspurn til hæstv. atvmrh., hvort það sje meiningin, að rannsóknarstofurnar eigi að vera tvær. Mjer finst, að það megi alveg eins og ekki síður efla þá, sem fyrir er, eins og að vera að setja upp aðra alveg hliðstæða. Hverjum dettur í hug, að ráð finnist við bráðapestinni, þó að þessi rannsóknastofa sje sett á stofn? Jeg geri alls ekki ráð fyrir, að hún komi að neinu verulegu gagni hvað það snertir.

Í 3. gr. frv. er svo ákveðið, að dýralæknum og starfsmönnum Búnaðarfjel. og Fiskifjel. skuli skylt að láta stofunni aðstoð sína í tje, hverjum á sínu sviði, gegn þeirri þóknun, sem ákveðin er í lögum eða reglugerð, sem atvmrh, getur sett um þetta efni. Jeg vil nú vænta þess, að hæstv. atvmrh., sem á að semja þessa reglugerð, sjái svo um, að þar sje ákveðið, að þessir menn fái ekki neina sjerstaka þóknun fyrir þau störf, sem þeim er skylt að vinna sem embættis- og starfsmönnum ríkisins. Eftir orðalagi 3. gr. má gera ráð fyrir þessu, en það væri órjettlátt og óþarfa kostnaður. Það er auðvitað gott og nauðsynlegt að geta látið gera rannsóknir í einstökum tilfellum, en það má gera á annan og ódýrari hátt en þann, að setja upp nýja rannsóknastofu.

Mjer þykir það leiðinlegt og óviðkunnanlegt, þegar um svona mál er að ræða, sem á að vera mjög merkilegt og þýðingarmikið, að þá skuli ekki fylgja nein kostnaðaráætlun. Í 6. gr. frv. segir svo, að allur kostnaður við stofnun og rekstur stofunnar skuli greiddur úr ríkissjóði, en engin upphæð er áætluð. Jeg hefði talið sjálfsagt að láta fylgja einhverja áætlun um það, sem ríkinu bæri að greiða, en hjer liggur ekkert fyrir um þá hlið málsins. Kostnaðurinn er ekki nefndur á nafn, en aðeins talað um þetta mikla gagn, sem rannsóknarstofan á að hafa í för með þjer. Jeg er samt hræddur um, að gagnið muni verða minna heldur en nú er látið í veðri vaka, og vil að síðustu láta í ljós það álit mitt, að þetta verði „humbug“ og ekkert annað.