06.05.1929
Neðri deild: 62. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2707 í B-deild Alþingistíðinda. (1519)

19. mál, landsreikningar 1927

Fjmrh. (Einar Árnason):

Jeg þarf aðeins að segja örfá orð út af ræðu hv. frsm.

Jeg verð að játa, að um sum atriðin, sem hv. frsm. gerði að umtalsefni, er mjer ekki fullkunnugt, þar á meðal um uppbótina á skrifstofufje sýslumannsins í Strandasýslu. Um það, hvernig á henni stendur, er mjer ókunnugt og get því engar upplýsingar um það gefið.

Þá mintist hv. frsm. á eignir Karls Einarssonar fyrv. bæjarfógeta, og hefi jeg ekkert að athuga við það, sem hann sagði um þær. Jeg geri ráð fyrir, að þessum eignum verði ráðstafað á þann hátt, sem hagkvæmast þykir fyrir ríkissjóðinn.

Um eignir viðkomandi landsversluninni er það að segja, að af tunnunum mun nú vera orðið lítið eftir, en bæði það, sem eftir er af þeim, og annað er sjálfsagt að selja.

Þá mintist hv. frsm. á hestahald og veislukostnað landhelgissjóðs. Þetta er gamalt deiluatriði og eldhúsdagsmatur. Það er viðurkent, að ekki er hægt að komast hjá nokkurri risnu vegna þeirra manna, sem hingað koma frá útlöndum í sambandi við landhelgisgæsluna. Sú risna er þá oft fólgin í ferðalögum, annaðhvort á hestum eða í bifreiðum. Hvort þessi kostnaður er tekinn úr landhelgissjóði eða beint úr ríkissjóði, skiftir ekki miklu máli. Það er í rauninni sama og að taka úr einum vasanum og láta í hinn.

Þá beinir n. því til ríkisstj., hvort ekki sje rjett að taka upp íhlutun um skipun stjórnar Fiskifjelags Íslands, svipað eins og á sjer stað um Búnaðarfjelagið. Þetta er auðvitað hægt að gera og þarf ekki annað en binda styrkinn til fjelagsins því skilyrði, að Alþingi eða stj. ráði einhverju um stj. fjelagsins, og vitanlega hefir stj. ekkert að athuga við, að það verði gert.

Um skuldainnheimtur ríkissjóðs er það að segja, eins og hv. frsm. tók fram, að allmikið hefir innheimtst á síðasta ári, og um framhaldið skal jeg taka það fram, að innheimtan hefir verið falin hv. 1. þm. Skagf., og jeg geri ráð fyrir, að hann hafi innheimtuna í samráði við stj., eftir því sem talið er best henta fyrir hag ríkissjóðsins. Hitt getur verið álitamál, hvort rjett sje að ganga mjög harkalega að mönnum; ef hægt er að komast að hagkvæmum samningum, getur það í mörgum tilfellum borið eins góðan árangur. Jeg held, að hv. 1. þm. Skagf. og jeg sjeum sammála um, að rjett sje að viðhafa alla gætni í þessari innheimtu, til þess að fá sem mest greitt af því, sem ríkið á útistandandi.

Jeg hefi svo ekki neitt annað að segja um nál. fjhn. eða það, sem hv. frsm. sagði um þetta mál.