26.04.1929
Neðri deild: 54. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í B-deild Alþingistíðinda. (152)

5. mál, rannsóknir í þarfir atvinnuveganna

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg vil láta í ljós hrygð mína yfir því, að hv. þm. Barð. skuli láta það vera sitt fyrsta verk á sumrinu að mótmæla svona kröftuglega því máli, sem jeg hefi fulla trú á, að komi að mestu notum fyrir þann atvinnuveg, sem hann stundar. Jeg er nú samt að vona, að það sje bara norðangarðurinn, sem hefir hlaupið í þennan ágæta vin minn, og hann muni síðar átta sig á þessu.

Hv. þm. lýsti vantrausti sínu á þessu frv., en það stafar sennilega af ókunnugleika. Ef hv. þm. hefði verið í hv. Ed., þá væri honum kunnugt um það, að þetta frv. er fram komið til þess að vinna bug á þeim hættulegu búfjársjúkdómum, sem nú færast svo mjög í aukana hjer á landi. Jeg hefi fulla trú á, að þetta megi takast með hjálp þessa frv., og vil benda hv. þm. Barð. á það, að jeg er ekki einn um þetta álit, því að allir fulltrúarnir á Búnaðarþinginu núna og í fyrra samþyktu að skora á Alþingi að koma með þessa löggjöf.

Það er ekki nokkur vafi á því, að sá skaði, sem þessir búfjársjúkdómar valda bændastjettinni árlega, nemur tugum og jafnvel hundruðum þúsunda.

Það er vitanlega ekki hægt að segja með vissu, hvort fljótlega verði hægt að finna læknisdóma gegn þessum sjúkdómum, en jeg tel það alveg óforsvaranlegt af þeim manni, sem er landbúnaðarráðherra, að hafast ekkert að, þegar önnur eins hætta er fyrir dyrum sem þessi. Annars fóru fram allítarlegar umr. um mál þetta í hv. Ed., og vil jeg ekki fara að endurtaka hjer það, sem þar var sagt, því að jeg vona, að það hafi frekar verið norðanáttin, sem valdið hafi þessu uppþoti hv. þm. Barð., en það, að hann í raun og veru sje svo mjög mótfallinn þessu máli, eins og helst var á orðum hans að heyra.

Hv. þm. spurði t. d., hverjum dytti í hug, að hægt væri að finna með þessu ráð við bráðapest. Þessu er því að svara, að mjer dettur þetta einmitt í hug, og öllum fulltrúum bændanna, sem mættir voru á búnaðarþinginu í vetur, datt það líka í hug, því að eins og nú standa sakir, höfum við ekki aðstöðu til þess sjálfir að gera fullnægjandi rannsóknir í þessum efnum, en verði úr því bætt, eins og farið er fram á í frv. þessu, þá er jeg þess fullviss, að eins og vísindin hafa á öðrum sviðum gert stórmikið gagn til þess að ryðja úr vegi ýmsum hindrunum fyrir atvinnuvegina, þá muni þau einnig, eins og þeim fleygir fram nú, vinna okkur gagn til þess að vinna bug á hinum mikla vágesti, sem bráðapestin er fyrir landbúnað okkar.

Þá vildi þessi hv. þm. halda því fram, að frv. þetta væri komið mestmegnis af löngun hjá mjer til þess að stofna nýtt embætti fyrir einhvern ákveðinn mann. Já, hver skyldi sá maður vera? Jeg þekki aðeins einn Íslending, sem komið gæti til mála í þessu efni, mann, sem á heima erlendis og hefir þar góða stöðu. Við mann þennan hefi jeg aðeins átt tal tvisvar sinnum á æfinni, svo tæplega er hægt að gera ráð fyrir, að jeg vegna persónulegra kynna af honum sæki það fast að stofna handa honum nýtt embætti. Annars er það öldungis óvíst, hvort hægt verður að fá mann þennan hingað, þar sem hann er bundinn í fastri stöðu. Eru því fullar líkur til þess, að í þetta sinn verði að fara eins að og þegar Forberg og Myklestad voru fengnir hingað, að fá hingað útlendan mann með sjerþekkingu á þeim hlutum, sem hjer á að vinna að. Jeg vil nú spyrja hv. þm. Barð., hvort hann í raun og veru haldi mig þannig innrættan, að jeg vilji endilega fara að stofna embætti fyrir einhvern útlendan mann, sem jeg hvorki hefi sjeð eða heyrt. — Þá hjelt hv. þm., að með þessu ætti eitthvað að fara að hlaða undir dýralæknana. En lesi hann 3. gr. frv., þá hlýtur hann að komast að raun um, að svo er ekki. Þar er aðeins sagt, að um þóknun til þeirra fari eftir lögum. Þeir eiga því eins og aðrir starfsmenn ríkisins að fá greiddan kostnað þann, sem þeir kunna að leggja út á ferðum sínum. Hjer er því ekki farið fram á neitt annað en að brjóta ekki lög á þessum mönnum, frekar en öðrum.

Þá sagði hv. þm., að alt væri í lausu lofti um kostnaðinn við stofnun þessa. Að þetta er ekki rjett hjá hv. þm., um það nægir að vísa til 6. gr. frv. Þar er alveg sjerstaklega frá þessari hlið málsins gengið, til þess að þm. geti altaf haft eftirlit með kostnaðinum. Í gr. þessari segir svo: „... og skal í fjárlögum ákveða laun starfsmanna og nægilegt fje til annars rekstrarkostnaðar“. Hjer er því skýrt tekið fram, að þingið ákveði kostnaðinn árlega.

Að síðustu vil jeg taka það fram, að mjer þótti mjög leitt að heyra ummæli míns mæta vinar, hv. þm. Barð. En af því að við ætlumst nú altaf til svo góðs hvor af öðrum, þá vona jeg, að hann verði mjer sammála að síðustu hvað þetta góða mál snertir.