06.05.1929
Neðri deild: 62. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2710 í B-deild Alþingistíðinda. (1522)

19. mál, landsreikningar 1927

Gunnar Sigurðsson:

Jeg get verið hv. fjhn. þakklátur fyrir, að hún hefir tekið aths. okkar yfirskoðunarmanna til greina, ekki síst frá hinni „kritisku“ hlið. Jeg skal taka það fram í þessu sambandi, alveg laust við það, hvort jeg gegni þessu starfi lengur eða skemur, að jeg tel misráðið að vera altaf að skifta um endurskoðendur árlega. Það er yfirleitt svo, að það verður hverjum að list, sem hann leikur. Sömuleiðis vil jeg taka það fram, að það ætti helst að hafa einn reikningsfróðan mann fastan í þessu starfi, þó skift væri um hina öðru hverju.

Jeg get verið hæstv. stj. þakklátur fyrir þær ráðstafanir í sambandi við skuldir vínverslunarinnar, að þeir viku úr stöðum sínum, sem mest skulduðu, en jafnframt verð jeg að láta þess getið, að mjer kemur það einkennilega fyrir sjónir, að sá, sem mest skuldar, situr enn í stöðu sinni. (Forsrh.: Hver er það?). Það er útsölumaðurinn á Akureyri. Það væri a. m. k. æskilegt, að gerð væri gangskör að því að fá þessa skuld greidda. (Forsrh.: Hún er öll greidd. — Fjmrh.: Skuldin er öll greidd). Úr því svo er, þá er það gott, en hún virðist hafa verið ógreidd þegar reikningurinn var gerður og lagður fyrir endurskoðendur.

Að því er snertir færsluna á reikningi landhelgissjóðs, gleður það mig, að meiri hl. fjhn. er mjer sammála um hana, og vil jeg aðeins taka undir ummæli hv. frsm. þar um.