03.05.1929
Neðri deild: 60. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2727 í B-deild Alþingistíðinda. (1572)

111. mál, brunamál

Magnús Guðmundsson:

Það var víst við 1. umr. þessa máls, sem jeg ljet það álit í ljós, að jeg teldi eðlilegast, að Brunabótafjelagið greiði þennan kostnað að mestu eða öllu leyti. Gerði jeg þá ráð fyrir að koma með brtt. við frv. En við 2. umr. var jeg ekki viðstaddur, og fór þetta mál út úr deildinni eins og það var flutt inn í byrjun. En í hv. Ed. var því breytt á þann hátt, sem hv. flm. kvaðst vera óánægður með, og vill fá aftur breytt.

Mjer finst það vera ofureðlilegt, að Brunabótafjelagið taki á sig þennan kostnað allan eftir að búið er að koma þessu í lag. Mjer finst það ekki vera rjett. af hv. flm. að gera þetta að kappsmáli. Jeg viðurkenni, að hann sem forstjóri Brunabótafjelagsins hafi skyldu til að sjá hag fjelagsins borgið. En það er svo um ríkissjóð, að honum eru bundnir svo margir baggar, og sumir stórir, og jeg get ekki sjeð, að þetta geti skift neinu verulegu máli fyrir Brunabótafjelagið. Og að því er snertir það, að ríkið er í ábyrgð fyrir fjelagið, þá er jeg ekkert hræddur við þá ábyrgð. Því að eftir því, sem iðgjöldin eru í. þessu fjelagi, þá hefir það sýnt sig, að þau gera miklu meira en að nægja til að greiða þá brunaskaða, sem hafa orðið. Og líklega er meira að segja hægt að færa þau eitthvað niður. Kæmi að því að lækka iðgjöldin fyr eða síðar, yrði þetta eitt af þeim atriðum, sem komið gætu til greina til þess að halda þeim uppi. Annars get jeg viðurkent, að hjer er ekki um svo stórt atriði að ræða, að nein ástæða sje til að deila mikið um það. En mjer finst eðlilegast, að Brunabótafjelagið beri þennan kostnað. Hann fellur á þess starfssvið og það nýtur mjög mikils góðs af þessari ráðstöfun.

Það er satt, sem hv. 1. þm. N.-M. sagði, að önnur fjelög greiða ekki neitt í þessu skyni, t. d. þau, sem hafa vátryggingu. En það er af því, að það er ekki hægt að ná til þeirra. En hjer er um skyldutryggingu að ræða hjá Brunabótafjelaginu, og því er hægt að koma þessu yfir á það, og mjer finst ekki nema sanngjarnt að gera það. Jeg legg því til, að frv. verði samþ. eins og það kom frá Ed.