06.04.1929
Efri deild: 38. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2736 í B-deild Alþingistíðinda. (1579)

115. mál, íbúð í kjöllurum

Jón Baldvinsson:

Jeg verð að segja, að jeg fellst alveg á þá hugsun, sem liggur á bak við þetta frv., en engu að síður finst mjer ýmislegt athugavert við formið. Frv. er góð hugsun í mjög ljelegum búningi, því að jeg fæ ekki betur sjeð en að það, sem hv. flm. ætla að útrýma, sjeu þeir einmitt að lögfesta. Mjer vitanlega er ekki til áður í lögum nein ákvæði, sem beinlínis lögheimila kjallaraíbúðir. En svo er um þetta frv. Strax í 1. gr. eru heimildir til þess, að gera megi kjallaraíbúðir. En Í heilbrigðissamþykt Reykjavíkur eru ákvæði, sem mega banna allar kjallaraíbúðir. Sú samþykt er sniðin eftir lögum, sem Alþingi hefir gefið sem heimildarlög, en ákvæðin eru svo lin, að æskilegt væri að fá fram í lögunum einhver ákvæði um lágmarkskröfur um húsnæði, og ef þetta frv. á að vera það, verð jeg að segja, að það er mislukkað, þar sem það einmitt heimilar að nota kjallara til íbúðar. Það ætti að vera algert og undantekningarlaust bann gegn kjallaraíbúðum.

Hv. 1. flm. hefir í ræðu sinni sagt margt gott um, að afnema eigi kjallaraíbúðir, en jeg er hræddur um, að því miður verði ekki eingöngu með lagabanni komið í veg fyrir, að menn búi í kjöllurum. Enda blasir við önnur leið, og það er að byggja svo margar íbúðir, að fólk þurfi ekki að nota kjallaraíbúðir. Jeg vil eiga von á stuðningi hv. 2. landsk., þegar frv. um verkamannabústaði kemur hingað til Ed. Það er leið til þess að útrýma kjallaraíbúðum og þá má banna að taka kjallara til íbúðar.

Þá er nafn frv., sem mjer finst mjög óviðkunnanlegt. Að nota orðið „jarðhús“ Í þessu sambandi er hreinasta misnotkun. Jeg hefði hugsað, að það ætti við hús, sem grafið væri í jörð niður. En hvað sem þessu líður, er rjett að láta frv. fara til n. Eins og það nú er nær það alls ekki tilgangi sínum. Það verkar alveg öfugt við það, sem það á að gera, því að það heimilar að gera djúpa kjallara til íbúðar. Það skal því ekki standa á mjer að gera brtt. við frv., sem eru í samræmi við þá aðalhugsun, sem mjer fanst koma fram í ræðu hv. flm.