06.04.1929
Efri deild: 38. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2738 í B-deild Alþingistíðinda. (1580)

115. mál, íbúð í kjöllurum

Flm. (Ingibjörg H. Bjarnason):

Jeg get ekki annað en látið mjer vel líka, að hv. 4. .landsk. skuli fallast á hugsun þessa frv. Jeg gat ekki búist við óskoruðu lofi frá hv. þm., en viðurkenningin um, að hjer væri um gott mál að ræða, blasti hinsvegar við okkur flm.

Jeg ætla með örfáum orðum að svara því, sem jeg náði að skrifa niður af aðfinslum hv. þm. Hv. 4. landsk. segir, að frv. geri ráð fyrir, að haldið verði áfram að byggja kjallara til íbúðar. Í grg. frv. er þó auðsjeð, að svo er ekki. Þar segir svo: „.... Með frv. þessu er að því stefnt að leyfa bestu jarðhúsaíbúðir, en banna hinar ....“. Og í 1. gr. segir svo: „í kaupstöðum og kauptúnum, sem hafa yfir 100 íbúa, má því aðeins gera íbúðir í jarðhúsum (kjöllurum), að þær fullnægi eftirfarandi skilyrðum . . . . “ o. s. frv. Með þessu er ekki verið að hvetja menn til að byggja kjallara til íbúðar, heldur þvert á móti. Jeg vil biðja hv. 4. landsk. að lesa frv. með meiri athygli og meiri velvilja. Jeg átti síst von á mótstöðu frá honum, með allri hans umhyggju fyrir þeim, sem neyðast til að búa í jarðhúsum.

Hv. þm. sagði, að frv. væri góð hugsun í ljelegu formi. Hann um það. Jeg býst ekki við, að jeg taki mjer nokkru sinni penna í hönd eða orð í munn, svo að honum þyki gott. Hv. þm. segir, að með þessu frv. sje verið að lögfesta kjallaraíbúðir. Það er viðleitni til að lesa á milli línanna það, sem er ekki í línunum sjálfum. Það er ekkert orð og enginn sá andi í frv., sem bendir til þess, að verið sje að örva menn til að byggja jarðhúsaíbúðir. Þvert á móti.

Hv. þm. sagði, að engin lög væru til um, að það ættu að vera jarðhúsaíbúðir í húsum. Nei, sem betur fer. En við flm. viljum láta banna með lögum allar slíkar íbúðir, óhollar og ljelegar. Þá sagði hv. þm., að hann teldi æskilegt, að Í lögunum væru lágmarksákvæði um jarðhúsaíbúðir. Það er einmitt það, sem verið er að gera með þessu frv.

Þá mintist hv. þm. á það, að ýmislegt þyrfti að laga í frv. Jú, jeg tók það sjálf fram. Það er eins með þetta frv. og flestar aðrar frumsmíðar, að það er ekki alfullkomið, enda er því ætlað að fara til nefndar. Og jeg gat þess, að jeg vonaði, að n. mundi með velvilja og íhugun umbæta þá galla, er á því kynnu að vera.

Hv. þm. sagði, að jeg hefði sagt margt gott um óhollustu jarðhúsaíbúða. Jeg þori að fullyrða, að jeg hafi að minsta kosti sagt satt. Jeg er ekki mikið fyrir að látast, en reyni að bera sannleikanum vitni í hvaða máli sem er.

Hv. þm. þótti heiti frv. óviðfeldið. Jeg hefi nú einhvern af okkar bestu norrænufræðingum fyrir því, að heitið sje rjett. Íslenskir torfbæir hafa aldrei verið kallaðir jarðhús, eins og hv. þm. mætti vita. Að síðustu sagðist hv. 4. landsk. vonast eftir stuðningi frá mjer, þegar frv. um verkamannabústaði kæmi hingað til Ed. Jeg get engu lofað um það, fyr en jeg hefi lesið frv. En því get jeg lofað, að jeg skal ekkert rangfæra í frv., heldur reyna að skilja það og tilgang þess. Þá getum við talast við um það, hvort jeg vilji styðja málið.