06.04.1929
Efri deild: 38. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2740 í B-deild Alþingistíðinda. (1581)

115. mál, íbúð í kjöllurum

Jón Baldvinsson:

Hv. 2. landsk. hefði átt að vera búin að lesa frv. um verkamannabústaði, því að það er fyrir löngu búið að leggja það fyrir þingið. Það sýnir ekki mikinn áhuga, að hafa ekki kynt sjer þá leið til úrlausnar á því máli, sem hv. þm. þykist vera að berjast fyrir.

Mjer hefir ekki fundist hv. flm. vera alveg í samræmi við sjálfa sig, þegar þm. las með áherslu fyrstu línurnar í 1. gr. og sagði, að því aðeins mætti gera íbúðir í kjöllurum, að fullnægt væri vissum skilyrðum. Og hv. flm. vildi láta líta svo út, að þetta væri bann gegn kjallaraíbúðum. En með þessu eru kjallaraíbúðir leyfðar, og það meira að segja í djúpum kjöllurum. Að vísu eiga þær að vita á móti sól. Það er auðvitað gott út af fyrir sig, en þetta er ekki sá tilgangur, sem lýsti sjer í fyrri ræðu hv. flm. Ef hv. flm. vill ekki þetta, þá hefir það óvart orðið svona í frv. Flm. eru reyndar tveir. Kannske að annar vilji banna kjallaraíbúðir, en hinn lögfesta þær. (IHB: Þetta er útúrsnúningur).

Jeg leyfi mjer að vísa þeim ummælum algerlega á bug, að jeg hafi ekki litið á þetta frv. með velvilja. Jeg vildi aðeins vekja athygli hv. flm. og hv. þdm. yfirleitt á því, hver væri úrlausnin í þessu máli. Það væri ástæða til að banna fleira en kjallaraíbúðir. Sumar háaloftsíbúðirnar eru síst betri. Jeg þekki margt fátækt fólk, einkum þar sem mörg börn eru og mikill erill og umgangur, sem kýs miklu heldur að búa í kjallara en uppi á háalofti.

Hvað sem hv. flm. hefir eftir norrænufræðingum, get jeg ekki felt mig við heiti frv. Hjer er það látið þýða alt annað en í fornu máli. Snorri Sturluson var drepinn í jarðhúsi; það var hús, sem grafið var niður í jörðina. En þessi „jarðhús“ eiga að vera úr steini og eru að nokkru ofanjarðar. En sjálfsagt er að taka frv. til velviljaðrar athugunar í n.