06.04.1929
Efri deild: 38. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2741 í B-deild Alþingistíðinda. (1582)

115. mál, íbúð í kjöllurum

Fhn. (Ingibjörg H. Bjarnason):

Mjer virðist anda hlýrra í garð frv. nú en í fyrri ræðu hv. þm., enda treysti jeg því, að hann samkvæmt stefnu flokks síns leggi gott til þessa máls.

Jeg felst ekki á, að jeg sje ekki í samræmi við sjálfa mig að því er snertir 1. gr. frv. Jeg skil mælt mál, engu síður en hv. 4. landsk., Jeg kann sæmilega að lesa. Að jeg hafi ekki náð hugsun minni í frv., kannast jeg heldur alls ekki við. Jeg skal taka undir það með hv. 4. landsk., að það eru fleiri íbúðir en jarðhúsaíbúðir, sem ástæða væri til að banna. Í sumum húsum eru íbúðirnar yfirleitt alveg óhæfilega illa úr garði gerðar og illa við haldið. En hvað dugir að kvarta? Menn hafa sjaldnast upp úr því annað en ómakið, þar sem við þá húseigendur er að eiga, sem hugsa meira um að fá sem mesta leigu en að íbúðirnar sjeu í viðunanlegu standi.

Það er ekki ástæða til að vera að karpa um þetta lengur. Jeg býst við, að þegar öllu er á botninn hvolft, vaki eitthvað svipað fyrir okkur báðum. Og þó að ekki náist til allra annmarka, sem á íbúðum eru, með frv. þessu, þá er það þó spor í þá rjettu átt. Einhversstaðar verður að byrja, og mætti svo smám saman fikra sig áfram.