02.05.1929
Efri deild: 59. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2746 í B-deild Alþingistíðinda. (1586)

115. mál, íbúð í kjöllurum

Ingibjörg H. Bjarnason:

Jeg get í öllum aðalatriðum verið ánægð með undirtektir hv. allshn., og þó einkum meiri hl. n., í þessu máli. Þær breyt., sem hv. meiri hl. n. leggur til, að gerðar verði á frv., eru ýmist orðabreyt. eða til bóta á efni frv.

Fyrsta brtt. hv. meiri hl. n. er við 1. gr. frv. Er hún í þrem liðum. Fyrsti liðurinn (a) gengur út á það, að í stað orðsins „jarðhús“ komi: kjallari. Þetta er orðabreyt., sem jeg hefi ekkert við að athuga í sjálfu sjer. Annar liðurinn (b) er þess efnis, að kjallara megi ekki grafa dýpra í jörðu en 1 m. á þeim hluta, sem íbúðarherbergin eru í, og gluggar megi ekki vera neðar en 25 cm. frá jörðu. Þessi brtt. er gerð Í samráði við okkur flm. frv., því að eins og hv. frsm. meiri hl. tók fram, fengum við áheyrn hjá n. Þriðji liður þessarar brtt. er á þá leið, að ekki megi skemri forgarður en 3 m. greina hús frá götu. í frv. var gert ráð fyrir 6 m. forgarði, en eins og við flm. tókum fram strax við 1. umr., mun þar til of mikils mælst og erfitt verða að koma þessu við, auk þess sem lóðir yrðu með þessu móti að vera mjög stórar og þar af leiðandi dýrar. Við flm. getum því, eftir atvikum, fallist á þessa brtt.

Önnur brtt. hv. meiri hl. allshn. er við 2. gr. frv. Er hún þar færð til betra og gleggra máls. Sama er að segja um aðrar brtt. hv. meiri hl. n. við frv. Við flm. frv. höfum því ekkert við þær að athuga, en teljum þær hinsvegar til bóta á frv.

Hv. 4. landsk. þm. hefir gert grein fyrir þeim brtt., sem hann flytur. Hann er sammála meiri hl. allshn. um það, að þetta frv. miði að því að bæta úr hinu illa ástandi, sem kjallaraíbúðimar valda. Er hann því að efni til samþ. þessu frv., en vill hinsvegar fara aðra leið til umbóta á þessu sviði. Honum þykir frv. ekki ganga nógu langt í því að útrýma kjallaraíbúðunum og vill láta leggja bann við þeim. Auðvitað teldum við flm. æskilegast að útrýma kjallaraíbúðunum í einni svipan, en við sáum okkur ekki fært að ganga svo langt. Eins og bent hefir verið á, mundi slíkt hafa í för með sjer húsnæðisvandræði og þannig hækka húsaleiguna, en það kæmi svo harðast niður á þeim, sem þetta frv. á að bæta í búi fyrir, fyrst og fremst. Að ætla sjer að leggja blátt bann við kjallaraíbúðum — það er svo stórt spor, að jeg þori ekki að stíga það. Að öðru leyti eru brtt. hv. 4. landsk. þm. í samræmi við frv. og aðeins lítils háttar orðabreyt. Þó gerir hann þar einn mun, þar sem hann vill láta þessi lög öðlast gildi 1. janúar 1930. Samkv. frv. öðlast l. gildi 12 vikum eftir að þau verða samþ., svo að þau öðlast síðar gildi eftir till. hv. 4. landsk.

Hv. 4. landsk. þm. getur ekki, frekar en hv. meiri hl. allshn., felt sig við orðið jarðhús, og vill í þess stað taka upp orðið kjallari. Jeg geri það ekki að neinu kappsmáli, hvort orðið verður heldur notað, þó að jeg sjái hinsvegar ekki, hvað geti verið á móti orðinu jarðhús. Jeg þekki ekki neina þá merkingu í orðinu, hvorki að fornu nje nýju, er þar geti verið í vegi. Og jeg er þakklát hv. meiri hl. n. fyrir það, að hann hefir orðið við þeim tilmælum mínum að halda orðinu jarðhús í svigum. En annars skiftir þetta engu máli.

Jeg teldi æskilegast, að þær umbætur, sem þetta frv. felur í sjer, gætu orðið sem fljótast, en vegna þekkingar minnar á þeim örðugleikum, sem hjer er við að stríða, sá jeg mjer ekki fært að ganga lengra í till. mínum en svo, að kjallaraíbúðunum yrði útrýmt á 30 árum. Það er fyrir mestu, að sá skilningur komist inn hjá fólki, að kjallararnir ættu með öllu að hverfa úr sögunni, nema til geymslu. Þó get jeg ekki tekið undir það, að kjallaraíbúðir geti aldrei verið góðar; en þær kjallaraíbúðir eru teljandi, sem svo er til vandað, að þær geti talist góðar, og mega ekki vera grafnar nema 1 m. í jörð niður.

Jeg læt hjer staðar numið. Jeg get í öllum aðalatriðum verið þakklát hv. allshn. fyrir meðferð hennar á þessu frv. og vænti þess, að hv. d. taki því með velvild og skilningi á þeim umbótum, sem Í því felast.