02.05.1929
Efri deild: 59. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2748 í B-deild Alþingistíðinda. (1587)

115. mál, íbúð í kjöllurum

Frsm. (Jóhannes Jóhannesson):

Jeg ætla ekki að fara að halda hjer neina ræðu. Jeg er áður búinn að gera grein fyrir því, af hverju n. gat ekki orðið samferða í þessu máli. Við í meiri hl. teljum, að það muni hafa óheppileg áhrif á húsaleiguna, ef svo langt er gengið og hv. 4. landsk. þm. vill fara. Okkur er það ljóst, að það mark, sem að á að stefna, er að útrýma hinum óhollu kjallaraíbúðum með öllu, en við teljum það of stórt stökk að ætla sjer að koma því í kring á 20 árum. Við munum því ekki geta greitt brtt. hv. 4. landsk. þm. atkv. Hinsvegar teljum við c-lið 2. brtt. hans til bóta og munum því flytja brtt. í samræmi við þann lið við 3. umr., ef frv. verður samþ. í þeirri mynd, sem við leggjum til. Eins og c-liðurinn er nú orðaður, getur hann ekki staðist, ef brtt. okkar meiri hl. verða samþ., og vænti jeg þess því, að hv. 4. landsk. þm. taki hann aftur, ef a- og b-liður þessarar till. hans verður feldur. Mjer finst það hálfóviðkunnanlegt að þurfa að fella þennan lið nú, en samþ. hann svo með lítilsháttar breytingum við 3. umr.

Viðvíkjandi 3. tölulið 1. gr. vil jeg taka það fram, að hann ber að skilja svo, að forgarður, ekki mjórri en 3 m., greini húsið frá götunni, ef gluggar á íbúðarherbergjum kjallaraíbúðar vita út að götu. Munum við hv. 2. þm. S.-M. taka það til athugunar, hvort ekki’ sje rjett að taka þetta skýrar fram en gert er í frv.