02.05.1929
Efri deild: 59. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2753 í B-deild Alþingistíðinda. (1591)

115. mál, íbúð í kjöllurum

Ingibjörg H. Bjarnason:

Jeg býst ekki við að svara nú öllum aðfinslum hv. 3. landsk. En út af því, sem hann sagði, að 1. gr. bæri það með sjer, að um frv. hefði ekki fjallað byggingarfróður maður, þá vil jeg taka það fram, að svo var þó, þótt að vísu væri ekki verkfræðingur. Annars hirði jeg ekki um að rekja, undir hverja frv. var borið. Sje jeg ekki annað en að 1. gr. frv. sje lýtalaus, og það því fremur, sem þar er ekki farið fram á annað en að íbúðirnar fullnægi hinum minstu heilbrigðiskröfum.

Þá fann hv. þm. að því, að tormerki væru á, að 4. liður sömu gr. yrði að nokkru hafður til hliðsjónar, þá er leyft væri að byggja kjallaraíbúðir. Það má náttúrlega deila um það, hvað sje „sæmilegt“, en svo framarlega sem almenningsálitið verður ekki dautt og marklaust, þá verður leiðbeining að þessu ákvæði.

Þá hjelt hv. þm. því fram, að rjett væri að banna að byggja kjallaraíbúðir, en hann væri þó ragur við að gera lögþvingaðar ráðstafanir til að útrýma þeim, sem fyrir væru.

Mjer finst, að þessi atriði 1. gr. þurfi ekki að fá þennan harða dóm, því að jeg hefi leitað umsagnar ýmissa manna, sem eru mjer fróðari á þessum sviðum, og eftir áliti þeirra hefi jeg farið.

Þá var vikið að því, að ákvæðin um forgarð og fjarlægðir milli húsa væru ekki nægilega skýr. Það er ákveðið að hún megi ekki vera minni en 3 m. frá götu. Hjer er auðvitað átt við kjallaraíbúðir, sem snúa að götu, en ekki við bakhlið húsa. Kjallaraíbúðir eiga að snúa í sólarátt, frá rjettu austri til rjetts vesturs, og umgengni á að vera sæmileg. Jeg fæ ekki betur sjeð en að þetta sje mikil bót frá því, sem nú er, en hitt virðast mjer þvingunarlög, ef á að fara að banna mönnum að hafa kjallaraíbúðir í húsum sínum, sjerstaklega þegar menn hafa bygt þau á dýrum lóðum og dýrustu tímum. Jeg hygg, að kjallaraíbúðir leggist niður af sjálfu sjer, þegar ákvæðin eru gerð svona ströng, og almenningsálitið mun útrýma þeim, hvort sem það kann að verða á 20 eða 30 árum, enda finst mjer það hafa frekar lítið að segja, hvort tíminn er 10 árum lengri eða skemri. Jeg er ekki eins stórhuga í framförunum og margir hv. þdm., enda virðist mjer það aðalatriðið, að þeim sje ekki íþyngt, sem verið er að reyna að bæta fyrir. Ef kjallaraíbúðir væru bannaðar með öllu nú þegar, myndi af því leiða, að ekla myndi verða á húsnæði og leiga hækka að miklum mun. Þess vegna höfum við flm. þessa frv. ekki sjeð okkur fært að ákveða tímann skemri en 30 ár.

Þá sagði hv. 3. landsk., að engin ákvæði væru sett um bakhlið húsa í frv., en þar er því til að svara, að fyrirkomulag húsa er yfirleitt samningsatriði milli byggingarnefnda, bæjarstjórna eða hreppsnefnda og eigenda húsanna. Og þeir myndu ekki fá leyfi til að byggja, nema sæmilega væri frá húsunum gengið. Það myndi engan gleðja meira en mig, ef hv. 3. landsk. og hv. 4. landsk. gætu komið fram með stórkostlegar umbætur á frv. þessu, og jeg hygg, að meðflm. minn sje mjer þar sammála. Okkur dettur ekki í hug að segja, að frv. þetta sje alfullkomið, jen jeg vil biðja hv. þdm. að athuga það, að öll ákvæði þess stefna til bóta frá því ástandi, sem er. Jeg verð að telja það illa farið, ef samningsatriði milli einstakra þm. og hlutaðeigandi n. tefðu framgang þessa máls, enda vænti jeg þess fastlega, að hv. þdm. láti ekki slík smáatriði ráða afstöðu sinni við atkvgr. um frv.