04.05.1929
Efri deild: 61. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2756 í B-deild Alþingistíðinda. (1595)

115. mál, íbúð í kjöllurum

Jón Baldvinsson:

Eins og kunnugt var við fyrri hluta þessarar umr., þá var málinu frestað, vegna þess að ýmsir hv. þdm. vildu koma með brtt. við frv., til þess að samræma það betur þeim tilgangi, sem með því var ætlað að ná. Það, sem jeg vildi leggja aðaláherslu á, var það, að kjallaraíbúðir yrðu bannaðar framvegis, þannig að ekki mætti innrjetta kjallaraíbúðir í nýjum húsum og ekki gera að nýju kjallaraíbúðir í gömlum húsum. Þetta fólst í brtt. mínum á þskj. 459. En nú hefi jeg tekið þær aftur, vegna þess að samkomulag hefir orðið milli mín og hv. 3. landsk. um aðrar brtt., sem ganga í sömu átt og sem við flytjum nú við þessa umr.

Þessar till. fara í fyrsta lagi fram á það að banna íbúðir í nýjum húsum, og ennfremur að gera kjallaraíbúðir í gömlum húsum. Þetta er tekið úr ákvæðum frv. eins og það er nú um skilyrði fyrir því að mega hafa íbúð í kjöllurum áfram, og er nokkurn veginn shlj. því, sem er í 1. gr., þó með þeirri breyt., sem allshn. vildi á gera, að forgarðurinn þyrfti ekki að vera nema 3 m. Því hefir verið bætt við, að þetta eigi við þar, sem kjallaraíbúð snúi að götunni, en vera má, að gluggar snúi í aðra átt, og sje þá nóg rúm til þess að fullnægja því, sem brtt. okkar vill vera láta.

Annað er ekki nýtt í þessum till., sem jeg ekki var búinn að minnast á í fyrri hluta ræðu minnar. Það hefir orðið að samkomulagi, að leita skuli álits hlutaðeigandi byggingarnefndar, áður en skorið er úr ágreiningi um það, hvað telja skuli kjallaraíbúð.

Fleiri ákvæði eru ekki ný. Þetta má segja, að sje soðið saman úr till., sem jeg flutti við fyrri hluta umr., og úr frv. eins og það nú er. Þar næst sá tilgangur, sem vakað hefir fyrir hv. flm., að takmarka og banna íbúðir í kjöllurum.