04.05.1929
Efri deild: 61. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2759 í B-deild Alþingistíðinda. (1598)

115. mál, íbúð í kjöllurum

Ingibjörg H. Bjarnason:

Það er ekki auðvelt fyrir mig að fara út Í brtt., sem fyrir liggja á þskj. 518. Mjer hefir ekki gefist tækifæri til að sjá þær fyr en í morgun. Hv. 5. landsk., meðflm. minn um þetta frv., hefir tekið fram ýmislegt viðvíkjandi þessum brtt., og er því óþarfi fyrir mig að rekja það svo nákvæmlega.

Hv. 3. og 4. landsk. flytja till. um það, að á undan 1. gr. komi ný gr.: að í kaupstöðum og kauptúnum, sem hafa yfir 100 íbúa, má ekki taka kjallara til íbúðar Í húsum, sem bygð eru hjer eftir. Þeir stíga það lengra en frv. gerði, að þeir banna að taka kjallara til íbúðar, og ennfremur að gera kjallaraíbúðir. Þetta er nú gott og blessað, og skal jeg ekki andmæla því. Reynslan verður að skera úr, hvort hjer sje ekki um fullstórt spor að ræða. Jeg hefi bent á það áður, að það má gera góðar kjallaraíbúðir.

2. brtt. við 1. gr. er það, að 1. gr. verði 2. gr. Í staflið a. á orðið „nota“ að koma í stað „gera“. Stafliður b. gengur út á það, að forgarður þurfi ekki að vera breiðari en þrír m. Þetta eru mjög lítilfjörlegar breyt.

3. brtt. er um það, að hreppsn. og bæjarstj. sje heimilt að leyfa um stundarsakir notkun kjallaraíbúða, sem fyrir eru, þótt þær fullnægi ekki skilyrðum 2. gr. Yfir þessar íbúðir skal hafa sjerstaka skrá. Skoða skal íbúðirnar árlega og leiðrjetta skrána samkv. því.

Hjer finst mjer stigið spor aftur á bak, þegar á að leyfa íbúðir, sem vitanlega eru ekki í góðu standi. Það er að viðhalda því illa ástandi, sem er.

4. brtt. er, að 3. gr. falli niður.

5. brtt. er við 4. gr., og er þar víst að miklu leyti um tilfærslu að ræða. Þó er allstór efnisbreyt., þar sem leyfa á um stundarsakir kjallaraíbúðir, sem nú eru notaðar sem mannabústaðir. Það er ekki nægilega tekið fram, að þessar íbúðir geti verið í svo slæmu standi, að hjer sje verið að taka það með annari hendinni, sem gefið er með hinni. Ennfremur vilja hv. flm. stytta tímann. Frv. gerði ráð fyrir á þrjátíu árum að afnema allar þær kjallaraíbúðir, sem heilbrigðisn., bæjarstj. eða hreppsn. álíta óhæfar. Þessi breyt. er fullkomlega í anda frv., en jeg er einungis hrædd um, að þetta geti orðið til þess að hækka húsaleigu hjá þeim, sem eru illa stæðir og búa í ódýrustu íbúðunum.

Við 5. brtt. hefi jeg ekkert að athuga.

6. brtt. er um það, að stjórnarráðið skuli skera úr ágreiningi um, hvað teljast skuli kjallaraíbúð, að fengnum till. hlutaðeigandi hjeraðslæknis og byggingarn., ef til er. Þetta ákvæði tel jeg til bóta. Enda vona jeg, að þeir, sem tilgreindir eru til úrskurðar um þetta, gangi eftir, að ákvæðunum sje framfylgt.

Jeg hefði helst kosið, að frv. hefði náð fram að ganga með ekki meiri breyt. en allshn. gerði á því, en verð eftir atvikum að sætta mig við þessar breyt., þótt jeg telji margar þeirra ekki til bóta, hvorki að búningi eða efni. Sú mótspyrna, sem heitið „jarðhús“ hefir mætt í hv. d., er mjer óskiljanleg, einmitt þar sem komin er fram þessi sterka tilhneiging til að taka upp fornyrði, — jafnvel á þeim stöðum, þar sem enginn gamall maður man eftir, að staðurinn gengi undir því nafni, sem upp skal taka.

Jeg hefi ekki tíma nema til stuttrar aths., enda þótt jeg hefði viljað segja fleira. Jeg vona, að frv. nái samþ. með þessum á orðnu breyt., og þó að þær sjeu ekki allar að mínu skapi, tel jeg frv. til stórbóta, bæði til endurbóta á íbúðum og til að útrýma ljelegum íbúðum.