04.05.1929
Efri deild: 61. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2761 í B-deild Alþingistíðinda. (1599)

115. mál, íbúð í kjöllurum

Ingvar Pálmason:

Þar sem hv. frsm. er ekki viðstaddur, vildi jeg láta nokkur orð falla út af brtt. þeim, sem fyrir liggja.

Það hefir verið tekið fram, að þessar brtt. gangi í sumum atriðum allmiklu lengra en frv. og þær brtt., sem meiri hl. n. hefir lagt fram. Þessar brtt. komu fram í n. strax, og um þær varð ágreiningur. Og afstaða meiri hl. til þeirra atriða er ekki að neinu leyti breytt.

Brtt. hv. 4. og 3. landsk. ganga sem sje í þá átt að afnema alveg íbúðir í kjöllurum. Þetta kann að vera nauðsynlegt; jeg skal ekki segja um það með fullri vissu. En jeg hygg, að það sje rjett í þessu tilfelli sem öllum öðrum að gæta þess, að svo skal böl bæta, að bíða ei annað meira. Jeg hygg, að í Reykjavík muni leiða af þessum ákvæðum talsverða erfiðleika fyrir einmitt þann hluta bæjarbúa, sem hjer á að bæta fyrir. Og þó að aldrei nema ströngu lagaákvæðin sjeu góð og geti borið góðan árangur, þá vil jeg ógjarnan setja lagaákvæði, sem ekki eru líkur til, að verði að öllu framkvæmd. En jeg óttast, að verði íbúðir í kjöllurum í Reykjavík forboðnar með öllu, þá hljóti það um ófyrirsjáanlegan tíma að valda nokkru hærri húsaleigu. Það er og skoðun mín og margra annara, að íbúðir í kjöllurum sjeu ekki lakari en í sumum öðrum stöðum, t. d. þakherbergjum. Jeg hygg, að íbúðir í kjöllurum, ef þeirra skilyrða er fyllilega gætt, sem sett eru í þessu frv., geti verið fyllilega sæmilegar og þurfi ekki að valda í minsta máta heilsutjóni.

Einnig ber að líta á, að þetta frv. nær til fleiri staða en Reykjavíkur, — allra kauptúna, sem hafa yfir 100 íbúa. Jeg efast um, að Alþingi sje við því búið, — ef þetta mál er skoðað niður í kjölinn — að setja slík ákvæði, að banna algerlega íbúðir í kjöllurum í smákauptúnum. Jeg hygg, að Alþingi eigi ekki að ganga lengra en að setja þau skilyrði, sem frv. gerir ráð fyrir, því að svo stöddu álít jeg varhugavert að ganga öllu lengra. Jeg vil því treysta því, að hv. d. aðhyllist frv. eins og það liggur fyrir með brtt. okkar meiri hl. allshn. Jeg held, að þar sje forsvaranlega langt farið. Jeg tel tímabilið, sem ætlað er til að útrýma þeim íbúðum, sem ekki fullnægja viðunandi skilyrðum, of stutt tuttugu ár. Til þessara endurbóta þarf gerbreytingu og umrót hjer í Reykjavík. Því að það er verra að þurfa að fara í gegnum sjálfan sig og slaka á lagaákvæðum, sem reynslan sýnir, að ilt er að framkvæma.

Að lokum vil jeg taka fram, að meiri hl. getur fallist á b-lið 2. brtt. á þskj. 518, sömuleiðis á 6. og 7. brtt. Sú 8. er í samræmi við brtt. meiri hl.