07.05.1929
Efri deild: 63. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2767 í B-deild Alþingistíðinda. (1605)

115. mál, íbúð í kjöllurum

Ingibjörg H. Bjarnason:

Þetta er nú síðasta umr. málsins, en jeg get ekki stilt mig um að minnast á helstu gallana eftir að búið er að samþ. breyt. þær á þskj. 518, sem hv. 3. og 4. landsk. báru fram. Það má segja, að til lítils sje að ræða frv. nú, en jeg skal þó gera nánar grein fyrir því, við hvað jeg á, þegar jeg tala um gallana.

1. brtt. á þskj. 518 er ný gr. og hljóðar um það, sem að nokkru leyti stendur í 1. gr. eins og frv. lá fyrir. Viðbótin er þessi, að það má ekki taka kjallara til íbúðar í þeim húsum, sem bygð eru hjer eftir. Þetta tel jeg síður en svo til bóta. Eigi má heldur gera kjallaraíbúðir í þeim húsum, sem bygð voru áður en lög þessi öðlast gildi. Sú till. er kannske meinlaus.

2. brtt. á sama þskj. er um það, að 1. gr. frv. verði 2. gr. Hún er í tveim stafliðum, a. og b. í stað þess að “gera“ komi „nota“. Það er aðeins orðabreyt. (Forseti: Jeg vil benda hv. þm. á, að þetta er búið að ræða áður). Það er ekki venjulegt, að það þurfi að biðja mig um að vera stuttorð, en þó skal jeg taka bendingu hæstv. forseta. Og það er kannske óþarfi fyrir mig að telja allar skemdir, sem orðnar eru á frv. Þó get jeg ekki stilt mig um að minnast á þær. Mjer virtist, sem hv. allshn. væri á sama máli og við flm. um öll aðalatriði frv., og jeg hefði getað fallist á brtt. n. En svo er 2. umr. frestað, og form. n. og hv. 1. landsk. flytja brtt. Um þær lýsti jeg yfir þá og lýsi yfir enn, að þær eru allar til skemda á frv., nema sú síðasta. Hana tel jeg til bóta, þar sem hún segir blátt áfram, að hjeraðslæknir og byggingarn., ef til er, skuli skera úr því, hvað teljast skuli kjallaraíbúð eftir lögum þessum.

Mjer þykir leitt að geta ekki fylgt þeirri braut, sem jeg ætlaði mjer í þessari umr., en jeg vil vera eins og hlýðnu börnin og verða góðfúslega við tilmælum hæstv. forseta.

En jeg verð þó að lýsa yfir þeirri skoðun minni, að það hafa komist veilur inn í frv., þessar undanþáguveilur. Jeg veit, hvaðan þær eru runnar. Það er eins og form. n. tók fram við 1. eða 2. umr. þessa máls, að ætli maður að koma fram umbótabreyt., þá má ekki hlífast við að koma illa við einhvern. Nú virðist mjer þessi sami hv. þm. (JBald) hafa breytt um skoðun, þar sem hann kemur nú með undanþágur, sem eru því hættulegri, þar sem vitanlegt er bæði í okkar bæjarfjelagi og líklega í mörgum öðrum, að óþarfi er að hlaða undir undanþáguveilur. Undanþágur skapa veilur. Þegar undanþágur eru leyfðar, er þeim of mikið beitt af þeim, sem líta meira á sinn eiginn hag og vina sinna og kunningja heldur en á hag heildarinnar. Jeg tel hag heildarinnar í þessu fulli betur borgið með því að koma fram þeim umbótum á kjallaraíbúðum, sem vakti fyrir höf. þessa frv. og okkur flm. Það er alkunnugt, að þetta frv. er að mestu leyti samið af hinum alþekta fróðleiksmanni í þessari grein, próf. Guðmundi Hannessyni. Og jeg efast um, að þeir, sem hjer hafa lagt til málanna, hafi gert það af meiri þekkingu og skilningi gagnvart almenningsheill en hann.

Það var verið að tala um göt á 1. gr. frv., þegar það lá fyrst fyrir. En jeg verð að snúa þessu við og segja, að það er búið að fara svo með þennan góða hlut, sem frv. var, að gera hann götóttan.

Jeg skal svo ekki fjölyrða um þetta mál. Mjer er svo ant um að koma fram umbótum viðvíkjandi þessum margumtöluðu jarðhúsaíbúðum, sem sumir vilja endilega láta heita kjallaraíbúðir, að þó að frv. okkar hv. 5. landsk. fengi ekki að vera óbreytt, þá vona jeg samt, að málið nái fram að ganga og megi verða til nokkurra bóta. Jeg vona ennfremur, að hv. Nd. taki það á dagskrá sem allra fyrst, þannig að það geti orðið að lögum á þessu þingi.