23.02.1929
Neðri deild: 6. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2788 í B-deild Alþingistíðinda. (1649)

24. mál, héraðsskólar

Ólafur Thors:

Mjer þykir rjett að nota þetta tækifæri, þegar stj. leggur fyrir þingið frv. um hjeraðsskóla, þar á meðal Laugarvatnsskólann, til að finna að gerðum stj. í því máli. Sýslurnar austanfjalls hafa viljað sameina sig um einn skóla; um það hafa allir verið sammála. En ágreiningur hefir aftur á móti verið um það, hvar skólinn ætti að standa.

Allar stj. hafa viðurkent sjálfsákvörðunarrjett sýslnanna í þessu máli, og einnig núv. stj., þar sem hún fjellst á að skipa oddamann þeirrar nefndar, sem ákveða skyldi staðinn. Eins og kunnugt er, valdi þessi oddamaður stj. Árbæ í Holtum í Rangárvallasýslu. En þá gerðust þau tíðindi, að hæstv. dómsmrh. tók sjálfsákvörðunarvaldið af hinum rjettu aðilum og ákvað sjálfur, að skólinn skyldi standa að Laugarvatni.

Jeg skal játa, að sökum ókunnugleika er jeg ekki dómbær um þennan stað. Jeg er jafnvel ekki fjarri því, að hann muni vera vel valinn. En hinu held jeg fram, að það hafi verið vítavert af hæstv. stj. að taka fram fyrir hendurnar á rjettum aðilum, úr því að samkomulag hafði náðst milli þeirra. Þetta framferði stj. verður Alþingi að víta. Þess ber og að gæta, að eftir þeim umr., sem hjer hafa farið fram, er fult útlit fyrir, að ríkið verði nú að leggja fram fje til tveggja skóla í stað eins. Og jeg verð að telja það ákaflega misráðið að stofna tvo skóla, þar sem allir viðurkenna, að einn skóli hefði nægt.

Jeg hefi hreyft þessu nú við fyrstu umr. þessa frv. um hjeraðsskóla, af því að jeg tel, að nú sje tækifæri fyrir Alþingi til þess að lýsa óánægju yfir gerðum ráðh. í þessu máli. Alþingi á að leggja þessari stj. og þeim stj., sem á eftir koma, þá lífsreglu að sóa ekki fje ríkisins að óþörfu á þennan hátt. Þörfin fyrir skóla á ýmsum stöðum er afarbrýn, og því seinna verður bætt úr henni, sem gálauslegar er með það fje farið, sem þeim er ætlað í fjárl.