23.02.1929
Neðri deild: 6. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2789 í B-deild Alþingistíðinda. (1650)

24. mál, héraðsskólar

Jörundur Brynjólfsson:

Hv. 2. þm. G.-K. hefir nú fundið að gerðum hæstv. dómsmrh. í skólamáli Sunnlendinga. Það er aukaatriði, hvort hann talar hjer frá eigin brjósti eða fyrir munn annara manna. Hitt er aðalatriðið, hvort aðfinslur hans eru á rjettmætum rökum bygðar eða ekki.

Jeg hafði ekki ætlað mjer að gera þetta mál að umtalsefni nú, jafnvel þó að það snerti enga meir en okkur fulltrúa Árnes- og Rangárvallasýslna. Jeg býst satt að segja ekki við, að aukast muni hróður þeirra manna, sem hafa haft það með höndum á undanförnum árum, þó frammistaða þeirra væri rifjuð upp.

Fyrir tveim árum var svo komið, að hjeraðsbúar sjálfir höfðu ráðið málinu til lykta. En þá var gripið inn í ákvörðun þeirra frá æðri stöðum og hún eyðilögð. Sú íhlutun var gerð á svo óviðeigandi hátt, að jeg mundi hafa sjeð mig knúðan til að átelja það, ef eigi hefði breytst aðstaðan til málsins hjer á þingi. En vegna þeirra breyt., sem urðu skömmu eftir þessa ráðstöfun, taldi jeg það eigi viðeigandi.

Hv. 2. þm. G.-K. átaldi hæstv. dómsmrh. fyrir það, að hann hefði, að mjer skildist, skipað skólanum stað á Laugarvatni. En í þessu kemur fram mikill misskilningur hjá hv. þm. Sýslunefnd Árnessýslu hafði eitt sinn ákveðið það, að skólinn skyldi standa að Laugarvatni, með það fyrir augum, að hann yrði ekki einungis fyrir Árnessýslu, heldur einnig Rangárvalla- og jafnvel Vestur-Skaftafellssýslur. Ákvörðun sýslunefndarinnar er því beinlínis fylgt með því að setja skólann að Laugarvatni.

Jeg viðurkenni það, að í Árnessýslu eru nokkuð margir menn á móti því að hafa skólann á þessum stað; og svo mun einnig vera í Rangárvallasýslu. Um Vestur-Skaftfellinga er mjer ekki kunnugt. En það veit jeg líka, að margir þessara manna eru engir sjerstakir skólamenn og mundu hafa látið sjer í ljettu rúmi liggja, þó að dráttur hefði orðið á stofnun skólans.

Nú þegar skólinn var reistur að Laugarvatni, þá var það eftir ósk nokkurra hjeraðsbúa sjálfra, og fyrir þeirra tilmæli og atbeina var fje veitt til hans. Jeg er því eigi kunnugur, hvað líður greiðslum úr ríkissjóði til skólans, en hygg þó, að þar hafi verið farið eftir fjárl. og eigi greitt meira en þau heimila.

Eins og kom fram í ræðu hv. 2. þm. G.-K., er vegalengd því ekki til fyrirstöðu, að hægt sje að sækja skóla þarna eins og annarsstaðar í hjeraðinu. Það skiftir minstu máli, hvort nemendur eiga 10–20 km. lengri eða skemri leið til skólans. Hitt er aðalatriðið, að skilyrði á staðnum sjeu sem best. Og þó að margir góðir skólastaðir sjeu á Suðurlandi, tekur enginn þeirra Laugarvatni fram. Jeg hefi heldur ekki orðið annars var en að almenningur yndi þeirri skipun, sem á er orðin. En hjer varðar mestu, eins og endranær, að vel sje á haldið. Því aðeins nær skólinn tilgangi sínum, að til hans veljast góðir menn. En þá er jeg ekki hræddur um, að hann gjaldi þess ágreinings, sem verið hefir um hann. Og það er illa farið, ef einhverjir þeir, sem þetta mál kemur tiltölulega lítið við, gerast til þess að ala á sundrung meðal hjeraðsbúa.

Jeg fyrir mitt leyti sje enga ástæðu til að gera ráðstafanir stj. í þessu máli að sjerstöku umtalsefni.