23.02.1929
Neðri deild: 6. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2791 í B-deild Alþingistíðinda. (1651)

24. mál, héraðsskólar

Gunnar Sigurðsson:

Jeg sje mjer ekki annað fært en að standa upp, fyrst verið er að ræða skólamál Sunnlendinga. Jeg hefi altaf haldið því fram, að Árnes- og Rangárvallasýslur ættu að standa saman um einn skóla. En nú hefir málið verið leyst með þeim hætti, að skólarnir hljóta að verða tveir, og fyrir þessa lausn á málinu vil jeg víta hæstv. stj.

Jeg verð að segja það, að frásögn hv. 1. þm. Árn. um val skólastaðarins er meira en lítið lituð. Sannleikurinn er sá, að skólinn var settur að Laugarvatni í trássi við meiri hl. manna á Suðurlandi.

Jeg tel hæstv. dómsmrh. freklega ámælisverðan fyrir að taka fram fyrir hendur á þeirri nefnd, sem valdi Árbæ fyrir skólasetur. Það má þó segja hæstv. dómsmrh. til hróss, að hann hefir tekið vel í að styðja skóla í Árbæ, ef hann yrði stofnaður þar að vilja hjeraðsbúa.

Læt jeg svo útrætt um þetta mál að sinni. Jeg vildi aðeins gera stutta grein fyrir afstöðu minni og leiðrjetta missagnir hv. 1. þm. Árn.