23.02.1929
Neðri deild: 6. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2793 í B-deild Alþingistíðinda. (1653)

24. mál, héraðsskólar

Einar Jónsson:

Jeg verð að taka undir með þeim, sem halda því fram, að það hafi verið rangt að reisa skólann að Laugarvatni eins og sakir stóðu. En jeg ætla ekki að vekja deilur um það efni. Jeg tel það illa farið, að hæstv. stj. skyldi hafa að engu till. þeirrar nefndar, sem valin var af hálfu Rangæinga og Árnesinga og samþykk varð um Árbæ sem skólasetur. Jeg er raunar í vafa um, hvor staðurinn sje betri. Laugarvatn er ágætur staður, en það er Árbær líka. í Ytri- Rangá er kraftmikill foss, sem er mikils virði til virkjunar. En það þýðir ekki að sakast um orðinn hlut. Nú, þegar búið er að reisa skóla að Laugarvatni, er æskilegt að hverfa eigi frá honum. En um þann skóla hefir ekkert samkomulag náðst milli Árnesinga og Rangæinga. Rangæingar eru jafnóánægðir eftir sem áður. Hitt skal jeg taka fram, að jeg hefi aldrei gert mikið úr vegalengdinni að skólanum, og geri ekki enn.

Það er rjett hjá hv. 2. þm. G.-K., að með því að stofna tvo skóla þar, sem einn hefði nægt, er farið ósparlega með ríkisfje.

Það atriði, að þm. eru að spila út ríkisfje, en ekki peningum úr eigin vasa, ættu þeir betur að muna en þeir gera, þegar um fjárveitingar er að ræða.

Samkv. þessu, sem nú er sagt, get jeg ekki verið sammála hv. 1. þm. Árn. um það, að hæstv. dómsmrh. hafi gert það, sem rjett var í þessu máli, því að af sundrunginni leiðir það, að reisa verður annan skóla handa Rangæingum. En hitt er satt, að ekki tjáir að sakast um orðinn hlut og að við það verður að sitja, sem komið er, og hlynna sem best að Laugarvatnsskóla í framtíð.

Jeg veit ekki, hvort óskir Rangæinga verða teknar til greina á þessu þingi, en hitt veit jeg, að það verður gert bráðlega. Jeg veit, að Alþingi vill ekki skilja Rangárvallasýslu útundan, enda á sú sýsla það ekki skilið, frekar en aðrar sýslur, sem enga fræðslustofnun hafa að halla sjer að. Það er rjett, sem einhver sagði áðan, að það má búast við fleiri röddum um skóla, þó að aðeins þessir fjórir skólar, sem gert er ráð fyrir með þessu frv., verði nú samþ. Úr Rangárvallasýslu er þegar komin fram krafa um skóla, og jeg er þá ekki spámannlega vaxinn, ef á löngu líður áður en rödd heyrist í sömu átt úr fleiri stöðum. Jeg sakna þess, að ekki skyldi takast samheldni með báðum sýslunum, Rangárvalla- og Árnessýslum, um að koma upp í sameiningu einum og góðum skóla, því að jeg ber kvíðboga fyrir því, að skólarnir verði því ljelegri og gagnsminni, því fleiri sem þeir verða. En jeg vona, að þingið beri gæfu til þess að hjálpa mönnum til að koma upp fræðslustofnunum þar, sem hentast er, því að ment er máttur.