23.02.1929
Neðri deild: 6. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2798 í B-deild Alþingistíðinda. (1655)

24. mál, héraðsskólar

Lárus Helgason:

Það er nú búið að tala svo mikið um skólamál, að varla er á bætandi, en af því að hv. 2. þm. Rang. fór að blanda okkur Skaftfellingum inn í umr., kvaddi jeg mjer hljóðs. Þessi hv. þm. sagði, að Rangæingar og Skaftfellingar væru jafnóánægðir með sitt skólaleysi. Jeg veit ekki betur en að Skaftfellingar sjeu vel ánægðir með úrslit skólamálsins, og það vill svo vel til, að jeg get fært rök fyrir því, Á fjölmennum fundi eystra vildi nefnilega svo til, að ákveðinn íhaldsmaður, sem framarlega hefir staðið í skólamálum, fann hvöt hjá sjer til að þakka hæstv. dómsmrh. fyrir aðgerðir hans í þessu máli. .Jeg býst við því, að Skaftfellingar mundu ekki víta úrslitin — nema þá örfáir menn —, heldur þvert á móti, ef málið væri borið undir þá. Og jeg verð að játa það, að jeg finn ekki heila brú í því, þegar menn eru að segja, að byggja verði annan skóla í Rangárvallasýslu, af því að skólinn var reistur að Laugarvatni. Jeg tel það ekki þm. samboðið að fylla þennan togstreytuflokk. Það þurfti einhver að skera úr um það, hvað best og heppilegast væri. Og það er tilfellið, að þrátt fyrir andúð gegn ráðstöfuninni í byrjun játar allur fjöldinn, að skólinn er á góðum stað og líklegur til að koma að almennum notum. Og mjer finst, að Alþingi væri þarfara að snúa sjer að einhverju öðru en að ræða um þetta mál, sem góð lausn er þegar fengin á.