23.02.1929
Neðri deild: 6. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2799 í B-deild Alþingistíðinda. (1656)

24. mál, héraðsskólar

Gunnar Sigurðsson:

Hv. 1. þm. Árn. var að víta mína frammistöðu í skólamálinu, en nefndi að vísu ekkert dæmi þess, enda er það ekki hægt. Hún hefir ávalt verið sú sama, að reistur væri einn skóli miðsveitar. Á þessum grundvelli hefi jeg altaf barist, og þegar málið var komið á góðan rekspöl í þessa átt, var tekið fyrir það, illu heilli. En það þýðir að vísu ekki að sakast um orðinn hlut og jeg þakka hinsvegar hæstv. dómsmrh. fyrir góðar undirtektir um að reisa sjerstakan skóla fyrir Rangárvallasýslu.

Jeg hefi ýmislegt að athuga við legu Laugarvatnsskólans. Hann liggur yst í Árnessýslu, og það er ekki rjett, að vegalengdin skifti engu máli. Hjeraðsskóla þarf að vera vel í sveit komið, t. d. með tilliti til fyrirlestrahalds. Hvað hitann snertir, er gott að hafa hverahita, en það er um fleiri möguleika að ræða, og jeg veit ekki betur en að gott sje til raflýsingar á Árbæ. Og því mega þeir ekki gleyma, sem ekki geta hugsað sjer skóla annarsstaðar en við hveri og laugar, að rafmagnið er engu síður framtíðarinnar orkugjafi til ljóss og hita.