23.02.1929
Neðri deild: 6. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2804 í B-deild Alþingistíðinda. (1658)

24. mál, héraðsskólar

Magnús Jónsson:

Þar sem jeg er Í mentmn., sem fær frv. þetta til meðferðar, þarf jeg ekki mikið um það að tala. En úr því að farið er að hefja hjer almennar umr. og eldhúsdag á hæstv. dómsmrh., vildi jeg leyfa mjer að segja örfá orð. Jeg skal fúslega viðurkenna, að það geri ekki mikið til, hvort skóli stendur í miðri bygð eða ekki, úr því að nemendurnir á annað borð verða að fara heiman að til dvalar. En hitt skiftir miklu, að samkomulag náist um skólann. Og hvað snertir skóla Sunnlendinganna, þá hefir það nú alllengi gengið, að ilt hefir verið að ná samkomulagi um hann, þó að ekki keyrði um þvert bak með ósamkomulagið, fyr en núv. kenslumálaráðh. greip inn í málið. Og jeg sakna þess, að hæstv. ráðh. skyldi ekki gefa skýrslu um afskifti sín af málinu, úr því að hann á annað borð fór að tala um það, því að satt að segja hafa ýmsar sögur gengið um þau, og þær allar ekki sem fallegastar. Hefði því verið gott fyrir hæstv. ráðh. að fá tækifæri til að hnekkja þeim.

Það mun aldrei hafa vakað fyrir mönnum að hafa nema einn skóla fyrir alt Suðurlandsundirlendið, hvað svo sem nú kann að vera orðið. Var máli því svo langt komið, þegar núv. hæstv. kenslumálaráðh. tók við völdum, að sýslurnar höfðu komið sjer saman um að velja menn til þess að gera út um, hvar skólasetrið skyldi vera, og átti stj. að útnefna oddamanninn. En svo hefir heyrst, að útnefning þessa oddamanns hafi genvið mjög erfiðlega fyrir hæstv. ráðh. Má og vel vera, að það sjeu lausafregnir, en hitt er víst, að margir vel þektir skólamenn fóru austur yfir „fjall“, að sögn til þess að búa sig undir það að verða oddamenn í þessari nefnd, sem átti að ákveða skólastaðinn. Meðal þeirra, sem fóru, má nefná skólastjórann frá Laugum, Ásgeir Ásgeirsson fræðslumálastjóra og kunnan skólamann hjeðan úr bænum, Helga Hjörvar, og var beinlínis sagt, að hann færi til þess að kynna sjer málið, svo að hann gæti verið oddamaður í n. En engan þessara manna skipaði ráðh. til þess að taka sæti sem oddamaður í n. Var sagt, að það væri af þeirri ástæðu, að enginn þeirra vildi fallast á þann stað fyrir skólasetur, sem ráðh. taldi óheppilegastan. Að hæstv. ráðh. vildi hafa þetta svo, er talið hafa verið af því, að hann í hjarta sínu var búinn að ákveða að hafa till. n. að engu, og taldi sjer því mestan styrk í því, að þær væru sem vitlausastar. Hvort þessar sagnir eru rjettar, skal jeg ekkert um segja, en hitt er víst, að vel tókst valið á manninum, sem loks var útnefndur sem oddamaður n. Hann valdi fyrir skólasetur Árbæ, „kaldan stað“, sem mjög orkaði tvímælis að væri heppilegt skólasetur. Var því þá svo komið, að ekki var um nema þessa tvo staði að ræða, Laugarvatn og Árbæ, og úr því lá beint við, hvor staðurinn skyldi valinn. Þannig er afskiftum núv. kenslumálaráðh. af þessu skólamáli lýst, og má vel vera, að þeim sje þannig rjett lýst, því að þau standa oft djúpt ráð þessa hæstv. ráðh. (Dómsmrh.: Þegar hann er að snúa á íhaldið).

Nú er um það að ræða, hvort Laugarvatn sje í rauninni heppilegt skólasetur. Ýmsir hv. þm. hafa nú staðið upp og talið, að svo myndi vera, og meðal þeirra hv. 1. þm. Rang. Hv. 1. þm. Árn. lagði mest upp úr, að það væri „heitur staður“. Hann skiftir nefnil. öllum skólastöðum í heita og kalda staði, eins og vinur hans dómsmrh. En jeg fyrir mitt leyti vil benda á eitt atriði, sem jeg tel hafa mikla þýðingu fyrir fjárhagslega afkomu skólans. Laugarvatn er mjög afskektur bær, en það verður að teljast miður heppilegt, því það liggur í hlutarins eðli, að mikill sparnaður getur verið að því fyrir skólann, ef þeir, sem við hann vinna, geta búið í nágrenni við hann, en það er ekki hægt, nema því aðeins, að hann sje þar, sem þjettbýlt er. Hvað Laugarvatn snertir er því ekki um slíkt að ræða; kennararnir verða að vera þar búsettir. Og getur vel farið svo, að sá kostnaðarauki, sem því er samfara, gæti vegið töluvert upp á móti hitanum, sem þar fæst ókeypis.

Þá talaði hæstv. ráðh. mikið um það, hve óánægjan og sundrungin á Suðurlandsundirlendinu væri mikil út af þessum málum, en jeg sje hreint ekkert, hvað hann hefir gert til þess að bæta úr þessari sundrung. Jeg fjekk ekkert annað út úr ræðu hans en það, að hann gerði ráð fyrir að reisa þarna tvo skóla, annan á Laugarvatni, en hinn í Rangárvallasýslu. Og það þjóðráð hefði hver maður getað fundið þegar í upphafi. Það má leysa hverja deilu með því að láta báða aðilja hafa sitt.

Þá vildi jeg aðeins minnast á eitt atriði enn. Mjer var nefnil. ekki kunnugt um annað en það væri fyrirfram afráðið, hver tæki við stjórn Suðurlandsskólans, þegar hann yrði stofnaður, sem sje sr. Kjartan Helgason í Hruna. En nú hefir, eins og allir vita, alt öðrum manni verið falin forstaða hans, og það án þess að sr. Kjartani væri boðin hún. Þetta er þeim mun undarlegra, þegar þess er gætt, að einmitt þessi sami maður, sem nú er kenslumálaráðh., var fyrir nokkrum árum mjög hlyntur fjárveitingu til þessa manns, beinlínis með það fyrir augum, að hann síðar tæki við skólastjórn Suðurlandsskólans. Það skyldi nú ekki vera, að skólinn hafi verið settur á Laugarvatni til þess meðal annars, að hann skyldi ekki í upphafi ganga undir nafninu Suðurlandsskóli, og það svo aftur til þess að losna við að bjóða þessum ágæta manni skólastjórnina.