23.02.1929
Neðri deild: 6. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2807 í B-deild Alþingistíðinda. (1659)

24. mál, héraðsskólar

Jón Auðunn Jónsson:

Með frv. þessu er verið að lögfesta nokkra staði fyrir hjeraðsskóla, þó að það muni nú vera svo, að þegar sje búið að ákveða staði fyrir skóla þessa bæði á Norðurlandi og í Borgarfirði, og að nokkru leyti á Suðurlandi. En hvað Vestfirðinga snertir, þá hafa þeir enga ákvörðun tekið um það ennþá, hvar hjeraðsskóli þeirra skuli vera. En svo hagar til víða á Vestfjörðum, að þar eru staðhættir góðir og því margir staðir þar til, sem heppilegir geta talist fyrir skólasetur, og það miklu heppilegri en Núpur, þar sem lýðskólinn er nú. Jeg hefði því kunnað betur við; að leitað hefði verið álits hjeraðsbúa, áður en farið væri að lögfesta þar staði fyrir hjeraðsskóla, sem engin ákvörðun hefir verið tekin um af hálfu hjeraðsbúa sjálfra.

Hæstv. dómsmrh. o. fl. hafa lýst því með mjög sterkum litum, hversu mikil þægindi og sparnaður væri í því að hafa slíka skóla þar, sem heitar laugar væru. Jeg verð því að ætla, að Vestfirðingum verði gefinn kostur á að hafa skóla sinn á þeim stað, þar sem best hagar til í þessu efni á Vestfjörðum, en það er við Ísafjarðardjúpið. Þangað eru líka mjög greiðar samgöngur, og auk þess afarauðvelt að ná þar í þá fæðutegund, sem ódýrust og hollust verður fyrir okkur Íslendinga, sem sje nýja fiskinn. — Jeg vildi aðeins benda á þetta, en ætla alls ekki að fara að taka þátt í þeim deilum, sem hjer hafa orðið.