23.02.1929
Neðri deild: 6. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2812 í B-deild Alþingistíðinda. (1662)

24. mál, héraðsskólar

Dómsmrh. (Jónas Jónsson) :

Hv. 1. þm. Reykv. var með spurningar til mín, sem jeg skal svara stuttlega. Hv. þm. þótti fyrst og fremst kynlegt, að nokkrir mentafrömuðir höfðu verið á ferð austanfjalls um það leyti sem Árnesingar voru að velja sjer skólastað. Jeg býst nú við, að hv. þm. sjái það, að ráðh. getur ekki lagt neitt lögbann á ferðir manna þar, og þá ekki heldur þótt mentafrömuðir ferðist þar um og finni vini sína þar. Jeg veit nú ekki um erindi allra þessara manna. Mjer þykir t. d. líklegt, að fræðslumálastjóri hafi átt erindi þangað austur vegna síns embættis. Þá vissi jeg, að Arnór skólastjóri á Laugum fór þangað eftir beiðni eins merkisbónda austur þar, sem mikinn áhuga hafði á skólamálinu. Jeg held, að ekkert vit hefði verið í því fyrir mig sem ráðh. að leggja lögbann á þessa menn, enda hafði jeg ekkert vald til þess. Það er rjett, að jeg útnefndi góðan mann og gegnan til að vera oddamaður í nefndinni. Reyndi hann að miðla málum svo sem kostur var. Úrskurður hans var sá, að ef saman ætti að ganga, þá væri helst um Árbæ að ræða. Hinu var þó langur vegur frá, að fult samkomulag væri um þennan stað. Jeg hefi nú verið sakfeldur fyrir að hafa nefnt þennan mann í n. En hefði jeg nú neitað því, hvað ætli hefði þá komið frá andstæðingum mínum? Ætli þeir hefðu þá ekki talað um þrjósku, óheilindi og yfirdrepskap? Hlutleysi mitt í vali þessa manns sjest best á því, að hann taldi sig skyldan að fara sem mest eftir vilja samskólamannanna, úr því að nefndin var sett að þeirra tilhlutun. En áhuginn var nú samt sem áður svo lítill fyrir þessum stað, að sýslan feldi að hafa skólann þar, og þegar svo var komið, gat landsstj. ekki aðhafst neitt til að koma upp skóla þar.

Þá vítti hv. þm. mig fyrir það, að jeg hefði ekki ráðið sr. Kjartan í Hruna fyrir skólastjóra á Laugarvatni. Mjer finst nú satt að segja dálítið öfugt að ásaka mig fyrir það, hvernig því máli er komið. Árið 1926 gekst jeg fyrir því, að Alþingi veitti sr. Kjartani nokkur heiðurslaun frá þinginu, gegn því, að hann tæki að sjer forstöðu væntanlegs skóla á Suðurlandsundirlendinu. Fjárveitingin gekk fram, þrátt fyrir andróður nokkurra íhaldsmanna. T. d. talaði hv. þm. Seyðf., mágur sr. Kjartans, móti fjárveitingunni, af því hann sagðist ekki vilja sr. Kjartani svo ilt að taka að sjer skólaforstöðu. Þó gekk þetta fram, en fjell síðan niður af því Jón heit. Magnússon neitaði að nota heimildina til að koma skólanum upp. Hann og vinir hans ólu á æsingu og sundurþykkju í þessu máli. Og svo er mjer brugðið um óheilindi, þótt jeg hafi ekki getað framkvæmt það nú, sem hann og fleiri börðust á móti þá og eyðilögðu. (ÓTh: Lifir ekki sr. Kjartan enn?). Jú, en þegar búið er að fella niður fjárveitinguna, er ekki lengur hægt að framkvæma það á þeim grundvelli, er lagður var 1926. Á hinn bóginn er það sannanlegt, að byggingarnefnd Laugarvatnsskóla fól trúnaðarmanni sínum í fyrra að leita hófanna við sr. Kjartan, en hann vildi þá ekki sinna því. Og þess vegna vísast öllum getsökum heim til föðurhúsanna, til þeirra manna, sem gerðu alt sitt til að eyða þessu máli fyr og síðar.

Enn er ekkert því til fyrirstöðu, að sr. Kjartan, eða hv. 1. þm. Reykv., eða hver annar, sem til greina getur komið, verði skólastjóri á Laugarvatni, því skólastjórastaðan verður opin þar Í vor. En þeim, sem ávalt hafa viljað bregða fæti fyrir þetta mál og hafa með undirferli og þrjósku reynt að tefja það — þeim er best að þegja.