23.02.1929
Neðri deild: 6. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2824 í B-deild Alþingistíðinda. (1669)

24. mál, héraðsskólar

Magnús Torfason:

Jeg hefi setið hjá hingað til í þessum umr. En sem oddviti sýslunefndarinnar í Ámessýslu og út af ummælum hv. 1. þm. Reykv. get jeg ekki látið það ógert að lýsa yfir því, að jeg tel, að við Árnesingar eigum engum manni fremur að þakka skóla þann, sem við höfum loks fengið, en hæstv. dómsmrh. Með dugnaði sínum og viljastyrk hefir hann átt þátt í því, öllum öðrum fremur, að hrinda þessu stórnauðsynlega máli í framkvæmd. Annað mál er það, að skólann styðja líka margir aðrir góðir menn, sjerstaklega í uppsveitum Árnessýslu. Og eiga þeir miklar þakkir skilið fyrir áhuga sinn og framtak. Þeir hafa með föstum samtökum ýtt málinu áfram og lagt á sig þyngri byrðar í því skyni en dæmi munu vera til annarsstaðar á landinu.