20.02.1929
Efri deild: 3. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 332 í B-deild Alþingistíðinda. (167)

2. mál, fiskiræktarfélög

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Þetta mál hefir legið fyrir Alþingi áður í lítið breyttri mynd frá því, sem það er nú. — Það er undirbúið að tilhlutun Búnaðarfjelags Íslands og Fiskifjelags Íslands, af vel færum og fróðum mönnum í þessum efnum.

Frv. lýtur að því að gera veiðivötn og ár auðugri af fiski og meira arðberandi en áður. Til sönnunar því, að það málefni, sem þetta frv. fjallar um, orkar ekki tvímælis, skal jeg nefna dæmi um það, hvað miklu silungaklakið í Mývatni hefir orkað á síðustu árum og aukið veiði í vatninu. Fyrir nokkrum árum, áður en farið var að starfrækja klakið þar í sveit, var mjög lítil silungsveiði á sumum jörðum við vatnið, t. d. í Reykjahlíð. En fyrir allmörgum árum var stofnað fjelag meðal bænda umhverfis vatnið til þess að stunda silungaklak, og eftir nokkurra ára starfsemi þess fjelags hefir brugðið svo við, frá því sem áður var, að frá Reykjahlíð hafa á sumum tímum árs verið fluttir margir hestburðir af silungi í aðrar sveitir. Silungsveiði hefir aukist stórkostlega í Mývatni eftir að farið var að starfrækja klakið, og sjerstaklega hefir hún skiftst jafnara en áður milli jarðanna umhverfis vatnið.

Þetta frv. snertir landbúnaðinn meira en sjávarútveg, þó að það fjalli um fiskirækt, og legg jeg því til, að því verði vísað til landbn.