10.05.1929
Neðri deild: 65. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2833 í B-deild Alþingistíðinda. (1689)

24. mál, héraðsskólar

Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Þegar frv. þetta var afgr. hjeðan úr Nd., var ekkert takmark sett um lengd þeirra námsskeiða, sem frv. gerir ráð fyrir, að haldin sjeu við alþýðuskólana og styrkhæf teljast. En hv. Ed. hefir nú breytt þessu og sett lágmarkið 6 vikur. Jeg get nú kannske fallist á það, að rjett sje að setja eitthvert lágmark, enda þótt mjer þyki hv. Ed. hafa sett það of hátt, og hefi því komið fram með brtt. um að færa þetta niður í 3 vikur. Þykist jeg vita, að hv. Ed. geti fallist á það og að málinu sje því ekki stefnt í neina hættu, þótt brtt. sje samþ.

Jeg tel, að námsskeið, sem standa í 3 vikur, og raunar skemur, geti í mörgum tilfellum komið að tilætluðu gagni. Svo er t. d. um ýms handavinnunámsskeið, húsmæðranámsskeið o. fl., sem geta gert fult gagn, enda geta nemendur ekki varið meiri tíma til þeirra oft og tíðum. Skólar þessir standa svo lengi, 6 mánuði, og námsskeiðin verða því að fara fram haust eða vor, og geta því naumast starfað langan tíma.

Jeg þykist vita, að málið sje í engri hættu og hefi því gert þessa litlu brtt., sem jeg vona, að verði samþ.