01.03.1929
Efri deild: 11. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 333 í B-deild Alþingistíðinda. (169)

2. mál, fiskiræktarfélög

Frsm. (Jón Jónsson):

Landbn. hefir athugað frv. og leggur eindregið til að samþ. það, með aðeins einni örlítilli breyt. N. fanst rjett, að þegar stofnað er til samtaka um fiskirækt, þá eigi eigendur allra þeirra jarða, sem liggja að fiskihverfinu, að vera boðaðir til fundar, án tillits til þess, hvort á jörðinni hafi áður verið stunduð veiði eða ekki. Það gæti svo farið, að við aukna fiskirækt færu þeir að veiða, sem hefðu látið það vera áður.

Aðra breyt. sá n. ekki ástæðu til að gera við þetta frv.

Um þörfina á sjálfu frv. má taka það fram, að mjög víða er vaknaður áhugi fyrir að auka fiskimagn vatna með fiskirækt, og sumstaðar er byrjað á því starfi. Er líklega lengst komið við Mývatn, og virðist hafa borið góðan árangur. En þó nokkrir annmarkar eru við fiskiræktina, nema því aðeins, að fjelagsskapur geti tekist um hana. Meðal annars er hún nokkuð kostnaðarsöm, og virðist þess vegna rjett að styðja að því, að hægt sje að láta alla, sem veiðirjett eiga, taka þátt í kostnaðinum. Það virðist best, eins og tíðkast í mörgum öðrum greinum. Með samtökum ætti líka að vera betur trygt, að fiskiræktin færi betur úr hendi en ella, og það er mikilsvert atriði. N. leggur því eindregið til, að frv. verði samþ.