16.05.1929
Neðri deild: 70. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2847 í B-deild Alþingistíðinda. (1714)

122. mál, Menningarsjóður

Magnús Guðmundsson:

Það er fjarri mjer að ætla að hefja kappræður um þetta mál, enda er jeg ekki í efa um það, ef rannsaka á, hvað eru lög, þá er það ekki annað en það, sem birt er í Stjórnartíðindunum. Því er ekki að neita, að komið hefir fyrir, að atriði hefir verið samþ. við eina umr. og farið með það síðan sem lög. En hitt er rjett, að það var ekki tilætlun þingsins að gera þetta. En lögin eru ekki það, sem þingið ætlar að segja, heldur það, sem það í raun og veru segir.

Það er rjett út af fyrir sig hjá hv. frsm. meiri hl., að löggjafarvaldið er ekki hjá dómsmrh. og konungi eingöngu, heldur er það hjá Alþingi og konungi í sameiningu. Af því leiðir aftur það, að lögum er ekki hægt að breyta nema á þann sama hátt og þau verða til. Um búnaðarbankann er alt öðru máli að gegna. Sú villa, sem þar var um að ræða, var leiðrjett í heyranda hljóði frá forsetastóli strax. En eigi að breyta lögunum, verður það að gerast á Alþingi og ganga áðan gegnum ráðherra, konung og Stjórnartíðindi.

Jeg hefði gaman af, að hv. 2. þm. Árn. gæti bent á hliðstætt dæmi frá Danmörku, þar sem leiðrjett hefði verið samskonar efni á þann hátt og hjer er lagt til. Jeg þekki a. m. k. ekkert dæmi þess. En hitt veit jeg, að í danska ríkisdeginum kom það fyrir, að villa var í eintaki því, er forseti undirritaði og konungur staðfesti, en þó álitið lög, þar sem það var undirritað af rjettum aðilum.