16.05.1929
Neðri deild: 70. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2849 í B-deild Alþingistíðinda. (1717)

122. mál, Menningarsjóður

Frsm. meiri hl. (Ásgeir Ásgeirsson):

Það er vitanlega rjett hjá hv. þm. Dal., að aðalskýringin liggur í sjálfum orðum laganna, en svo eru líka aðrar skýringar, sem sjást í sögu málsins, og þær geta orðið þungar á metunum.

Nú er það rjett skýring á því atriði, sem hjer um ræðir, að það er inn í lögin komið fyrir vangá. Það hefir ekki verið formlega borið upp og aldrei formlega samþ., heldur hefir það komist inn í lögin þvert á móti vilja þingsins og á síðustu stundu.

Það er rangt hjá hv. frsm. minni hl., er hann segir, að það atriði, sem hjer um ræðir, hafi verið samþ. við atkvgr. og talsvert um það deilt. Það hefir aldrei nein sjerstök atkvgr. farið fram um það, en frv. samþ. í einni heild. Jeg get ekki á neinn hátt litið á þetta öðruvísi en prentvillu, og enginn þarf að óttast, að hæstv. dómsmrh. hafi hvíslað Í eyru konungs neinum upplýsingum um þetta atriði sjerstaklega.

Hæstv. dómsmrh. var það meira að segja ekki ljóst fyr en í vetur, hvaða slys hafði orðið. Milli hans og konungs hefir ekkert borist í tal um þetta, svo að konungi er ekki heldur ljóst, hvaða breyt. hefir á orðið. Enginn þarf því að gera sjer samviskubit eða óþægindi út af því, að konungur hafi með sinni staðfestingu ætlast til annars en dagskráin felur í sjer.