17.05.1929
Neðri deild: 71. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2851 í B-deild Alþingistíðinda. (1721)

122. mál, Menningarsjóður

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson):

* Jeg skal ekki gefa tilefni til langra umr. um þetta mál, en vil aðeins lýsa yfir því, að mjer virðast þær breyt., sem gerðar hafa verið í Ed., til bóta. Hv. frsm. og flm. hefir gert grein fyrir í hverju þessi munur liggur, sem lagt hefir verið til í Ed. og hjer er farið fram á, og sje jeg ekki ástæðu til að víkja að því fleirum orðum. Það, hvort Mentamálaráðið geti haft áhrif á val þeirra bóka, sem út eru gefnar, er ekki skýrt til tekið, en nú er ákveðið, að ekki skuli tekin fullnaðarákvörðun um val bókanna, nema leitað sje álits Mentamálaráðsins, og það ætti að verða trygging gagnvart Alþingi gegn því, að valdar sjeu laklegar bækur. Hv. Alþingi mun ekki láta blekkjast af því, að þótt nú sjeu færir menn, sem skipa þau embætti, sem til eru tekin, þá getur þó svo farið, að á því verði breyt., þannig að þessir menn hafi ekki næga dómgreind til að finna út það, sem best er. Jeg vil að endingu leiðrjetta það hjá hv. flm., að enginn ágreiningur hafi orðið um þetta mál á síðasta þingi, því að þá kom fram brtt., er gekk Í þá átt að fela Mentamálaráði umráðin til fulls. Þetta er miðlunartill. milli þeirra stefna, er komu fram í þinginu í fyrra, og sje jeg ekki ástæðu til að ræða málið frekar.

Ræðuhandr. óyfirlesið.