18.05.1929
Efri deild: 74. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2854 í B-deild Alþingistíðinda. (1727)

122. mál, Menningarsjóður

Jón Þorláksson:

Ágreiningurinn, sem er um þetta mál, hann er um það atriði, hvort Mentamálaráðið eigi að hafa nokkum íhlutunarrjett um það, hvaða bækur sjeu gefnar út fyrir þann hluta Menningarsjóðs, sem á að verja til bókaútgáfu. Lögin fela forstöðu þeirrar bókaútgáfu þremur embættismönnum, og eins og lögin eru nú, þá hafa þeir alla forstöðu bókaútgáfunnar, en Mentamálaráðið ræður vali bókanna.

Því er nú haldið fram, að þetta hafi komist inn í lögin fyrir vangá, en jeg fyrir mitt leyti hefi alls ekki getað sannfærst um, að svo væri. Það stóð í frv. eins og það var borið fram í fyrra, að „nefndin“ eigi að ráða bókaútgáfunni, en það þýðir annars í frv. Mentamálaráðið, sem þá hjet í frv. mentamálanefnd, en er nú skýrt svo, að það eigi að þýða stjórn útgáfudeildar. En þegar skilur á lagagrein og lögskýringu, þá er það forn venja, að lagagrein skuli ráða. Til samkomulags gekk jeg inn á það í mentmn. þessarar hv. deildar, að ganga þannig frá málinu, að stj. útgáfudeildar, þessir þrír embættismenn, hefðu að vísu úrskurðarvald um val bókanna, en að þeir ættu að bera sínar till. undir Mentamálaráðið, og mjer finst, satt að segja, úr því að þingið skipar þessa stj., þá megi ekki minna vera en að hún fái að vita, hvað embættismennirnir eru að gera. Þetta hefir ekki fundið náð fyrir augum hv. Nd., sem hefir fært frv. í það horf, að þessi bókaútgáfa skuli alveg vera í höndum þessara embættismanna og sú þingkosna yfirstjórn, Mentamálaráðið, ekki einu sinni að fá að vita um það, fyr en bækurnar eru komnar á markaðinn, til hvers peningunum er varið. Mjer finst ekki rjett að gera þessa breyt. Það er vísað í það, að Mentamálaráðið mæli með henni, en það er fullkomlega upplýst, að það stendur ekki óskift; það eru til þeir fulltrúar, sem óska að fá vitneskju um það fyrirfram, hvaða bækur er í ráði að gefa út, og það er ekki nema eðlilegt.

Eins og frv. nú liggur fyrir finst mjer ekki vera rjett að láta það ganga fram, og verð því fyrir mitt leyti að greiða atkv. á móti því.