12.04.1929
Efri deild: 43. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2860 í B-deild Alþingistíðinda. (1734)

123. mál, ráðstafanir vegna alþingishátíðarinnar 1930

Frsm. (Jóhannes Jóhannesson):

Eins og frv. þetta ber með sjer, er það flutt af allshn. eftir beiðni undirbúningsnefndar alþingishátíðarinnar 1930, en í þeirri nefnd eiga sæti tveir af ráðherrunum, svo óhætt er að ganga út frá því, að það sje í fullu samræmi við vilja stj.

í I. lið 1. gr. frv. eru ákvæði um að láta slá sjerstaka minnispeninga í tilefni af 1000 ára afmæli Alþingis, en til þess að minnispeningar þessir verði gjaldgeng mynt þarf lagaheimild.

Annar og þriðji liður 1. gr. eru um heimild fyrir stj. að taka í sínar hendur umráð yfir leigubifreiðum, sem notaðar verða til þess að flytja hátíðargesti 1930 um Þingvallavegina og aðra vegi nærlendis, og ennfremur um heimild til þess að taka í sínar hendur umráð yfir herbergjum í gistihúsum í Reykjavík og á Þingvöllum um 3 vikna tíma meðan á hátíðahöldunum stendur. Ákvæði þessi telur n. nauðsynleg, en gerir jafnframt ráð fyrir, að ekki þurfi til þeirra að taka, því að hún væntir, að samningar náist við hlutaðeigandi aðilja um þessa hluti án þess að til valdboða komi. Vænti jeg svo, að málið fái að ganga áfram nefndarlaust.