18.04.1929
Efri deild: 48. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2861 í B-deild Alþingistíðinda. (1737)

123. mál, ráðstafanir vegna alþingishátíðarinnar 1930

Frsm. meiri hl. (Ingvar Pálmason):

Við 1. umr. þessa máls var frv. vísað til fjhn. Fór það svo, að n. gat ekki orðið sammála, og leggur meiri hl. til, að frv. verði samþ., eins og sjá má á þskj. 331, en minni hl. hefir ekki skilað neinu áliti, en mun eflaust gera sínar aths. hjer við þessa umr.

Um frv. sjálft er eiginlega ekki neitt að segja annað en það, sem tekið er fram í grg. Virðist ekki ástæða til þess að setja sig á móti því, að hátíðarnefndin fái heimild til þess að hafa hönd í bagga með samgöngum til Þingvalla yfir þann tíma, sem hátíðahöldin standa, og á ekki að nota þá heimild, sem gefin er í II. og III. lið frv., nema nauðsyn krefji að dómi hátíðarnefndarinnar.

Um I. liðinn er það að segja, að hann er alveg sjálfstæður og getur engin hætta af honum stafað. Má telja það víst, að þessir minnispeningar seljist allir, og væri eflaust óhætt að hafa þá fleiri, sjerstaklega þá smærri, því að margir hátíðargestir munu sækjast eftir þeim, t. d. Vestur- Íslendingar. N. hefir að vísu ekki komið með neina brtt., en ef fram kæmi brtt. um það, að auka tölu minnispeninganna af minstu tegund, þá mundi meiri hl. verða henni meðmæltur. Jeg sje svo ekki ástæðu til að tala frekar um þetta nema sjerstakt tilefni sje gefið.