30.04.1929
Neðri deild: 57. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2868 í B-deild Alþingistíðinda. (1749)

123. mál, ráðstafanir vegna alþingishátíðarinnar 1930

Frsm. (Ólafur Thors):

Frv. þetta er komið frá hv. Ed. Fjhn. þessarar d. hefir haft það til athugunar og leggur óskift til, að frv. verði samþ. N. álítur eftir atvikum rjett að veita stj. þá heimild, sem frv. fer fram á. Heimild þessi er í þrennu lagi: í fyrsta lagi er stj. gefin heimild til þess að láta slá minnispeninga í tilefni af hátíðahöldunum. Um það atriði hefir enginn ágreiningur orðið, enda er hjer um tekjugrein að ræða fyrir ríkissjóð. Í öðru lagi veitist ríkisstj. heimild til að taka í sínar hendur umráð yfir leigubifreiðum, sem notaðar verða til þess að flytja hátíðargesti 1930 um Þingvallavegina og aðra vegi nærlendis og ákveða hámark bifreiðataxta. Þessi liður var samþ. ágreiningslaust í Ed. og ágreiningslítið í fjhn. Í þriðja lagi veitist ríkisstj. heimild til þess að taka í sínar hendur umráð herbergja í gistihúsum í Reykjavík og á Þingvöllum meðan á hátíðahöldunum stendur. Enda þótt slíkar nauðungarráðstafanir sjeu flestum hvumleiðar og enda þótt óneitanlega væri best, að eigi þyrfti til þeirra að grípa, þá er nú málum svo háttað, að í þessu tilfelli verður ekki hjá þeim komist. Það er öllum hv. þm. ljóst, að hjer Í Reykjavík er þröngur kostur húsnæðis, enda mun það mála sannast, að engin gistihús sjeu hjer boðleg hinum tignu gestum, sem hjer verða á vegum þings og ríkisstj., nema hið nýja gistihús „Borg“, sem nú er verið að reisa. Alþingi hefir boðið talsvert mörgum gestum til hátíðahaldanna. Mun svo vera til ætlast, að þessir gestir beri sjálfir allan kostnað af för sinni og dvöl hjer. En hinsvegar ber skylda til að tryggja þessum mönnum vísan verustað á gistihúsum og greiða fyrir þeim að því og öðru leyti. Það er þessi hugsun, sem liggur til grundvallar þessum ráðstöfunum, sem felast í 3. lið 1. gr. En fjhn. hefir litið svo á, að það væri ekki nægjanlegt að útvega þessum gestum verustað, heldur yrði og að gera ráðstafanir til þess, að þessir gestir yrðu ekki krafðir um nema hæfilegt og eðlilegt endurgjald fyrir dvöl sína þar. Það væri tæplega vansalaust fyrir okkur, ef þessir tignu gestir yrðu að greiða okurleigu af þeim vistarverum, sem ríkisstj. vísar þeim á. En ef ekki eru gerðar sjerstakar ráðstafanir til þess að afstýra því, þá er ofureðlilegt, að svo verði í reyndinni, enda er slíkt altítt með öðrum þjóðum. Sem dæmi má taka, að meðan á brúðkaupi norska ríkiserfingjans stóð, komst leiga fyrir herbergiskytrur í Oslo upp í 500 kr. á viku, sem svarar 90 íslenskum kr. á dag. Slíkt okur verður að fyrirbyggja að því er snertir gesti ríkisins. Með það fyrir augum hefir nefndin lagt til, að bætt væri við III. lið 1. gr. ákvæði um, að ríkisstj. væri einnig heimilt að ákveða hámarksverð á herbergjaleigu meðan á hátíðahöldunum stendur. N. lítur svo á, að ef þetta er ekki ákveðið með lagafyrirmæli, þá geti af því leitt hin mestu vandræði, ef ekki næðist samkomulag milli stj. og eigenda þeirra herbergja, sem hún tæki undir sín yfirráð. En þótt n. álíti þetta nauðsynlegt, þá er það alls ekki meining hennar, að ákvæði þessu yrði beitt á þann veg, að eigendur gistiherbergja mættu ekki taka háa leigu. Okkur skiftir minstu um aðra en gesti ríkisins, og n. gerir ráð fyrir, að eigendur gistihúsa hafi óbundnar hendur um herbergjaleigu alment til annara en gesta Alþingis eða ríkisins.