30.04.1929
Neðri deild: 57. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2870 í B-deild Alþingistíðinda. (1750)

123. mál, ráðstafanir vegna alþingishátíðarinnar 1930

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg skrifaði undir nál. með fyrirvara. Sá fyrirvari snertir III. lið tillögunnar. Jeg tel óþarft að gefa stj. heimild til að setja hámarksverð á húsaleigu gistihúsanna og jeg skal geta þess, að t. d. gistihúsið „Borg“, sem nú er verið að byggja, mun sjálfsagt hafa gert ráð fyrir einhverjum gróða einmitt meðan á hátíðahöldunum stæði, enda væri slíkt ekki ómaklegt, því ella getur liðið á löngu áður en eigandinn fær greiddan þann geipikostnað, sem hann nú leggur í, auk þess sem húsið er bygt meðfram vegna hátíðahaldanna 1930. Jeg hygg, að slíkar ráðstafanir muni vera einsdæmi, nema ef ófrið ber að höndum. A. m. k. veit jeg, að meðan Wembly sýningin stóð, var ekkert hámarksverð sett á herbergjaleigu í London. Það er álitið, að þótt slíkar sýningar og hátíðahöld sjeu kostnaðarsöm, þá fáist nokkur endurgreiðsla óbeinlínis með þeim gróða, sem íbúarnir hafi af greiða- og gistisölu í sambandi við hátíðahöldin. Jeg tel þennan lið till. allsendis óþarfan, því að jeg tel víst, að stj. geti komist að samkomulagi við gistihúseigendur um verustaði handa hinum tignu gestum, sem koma að ráðstöfun Alþingis. Jeg kysi því helst, að þessi liður till. væri feldur niður. En með því fororði, sem hv. frsm. hafði um það, að þetta yrði ekki notað til þess að þröngva kosti gistihúseigenda. læt jeg ógert að mæla frekar gegn þessum lið. Get jeg því látið hjer staðar numið að sinni.