30.04.1929
Neðri deild: 57. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2872 í B-deild Alþingistíðinda. (1752)

123. mál, ráðstafanir vegna alþingishátíðarinnar 1930

Frsm. (Ólafur Thors):

Jeg vil leyfa mjer að benda á, að heimildina í II og III. lið 1. gr. frv. má stj. ekki nota nema nauðsyn krefji, að dómi undirbúningsnefndar hátíðahaldanna. Valdið er því alt hjá nefndinni.

Hv. þm. N.-Ísf. þarf jeg ekki að svara miklu. Það mun vera rjett hjá honum, að erlendis sje ekki gripið til slíkra ráðstafana sem þessara, enda er slíks ekki þörf þar. En hjer er alt öðru máli að gegna, þar sem ekki er um að ræða nema eitt gott gistihús og við eigum von á mörgum tignum gestum, sem beinlínis verða gestir ríkisins. Er því ekki um annað að ræða fyrir okkur en snúa okkur til eiganda þess, þar sem okkur ber skylda til að sjá um, að gestir okkar standi ekki á götunni. Og ef ekki semst um leiguna, er nauðsynlegt að geta ákveðið hana. Hitt er vitanlega alveg sjálfsagt, að hóteleigendur hafi óbundnar hendur með leigu á herbergjum sínum til annara en gesta landsins. Þar hafa þeir því óskertan rjett til þess að græða fje eftir því sem verða má, því að það er alls ekki til þess að hlífa buddu erlendra auðmanna, sem hingað kunna að leggja leið sína, sem frv. þetta er borið fram. Þvert á móti lítur n. svo á, að stuðla beri að því, að sem mestir peningar verði eftir í landinu frá hinum útlendu ferðamönnum.