30.04.1929
Neðri deild: 57. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2875 í B-deild Alþingistíðinda. (1755)

123. mál, ráðstafanir vegna alþingishátíðarinnar 1930

Frsm. (Ólafur Thors) :

Hv. þm. Borgf. taldi frv. þetta óþarft, en ræddi þó ekki um það í heild, heldur aðeins III lið 1. gr. þess. Jeg býst því við, að hann hafi aðeins átt við það ákvæði þess. Hv. þm. virtist byggja skoðun sína á því, að okkur Íslendinga ræki ekki nauður til að gera ráðstafanir, sem aðrar þjóðir gerðu ekki. En eins og jeg benti á í svari mínu við ræðu hv. þm. N.-Ísf., þá stendur alt öðruvísi á hjá okkur en annarsstaðar. Hjer verður aðeins um eitt sæmilegt gistihús að ræða, en erlendis er venjulegast um fjölda gistihúsa að ræða, sem taka við fólksstraumnum, og er því ekki ástæða til slíkra ráðstafana þar eins og hjer. Annars geri jeg ekki ráð fyrir, að hinir ágætu þm., hv. þm. Borgf. og hv. þm. N.-Ísf., viti nokkuð um það með fullri vissu, hver sje venja erlendra þjóða í þessum efnum. Jeg fyrir mitt leyti get ekkert um það sagt, hvort nokkurntíma sje gripið til slíks eða ekki. En jeg lít svo á, að sje nokkurntíma ástæða til þess að tryggja sig hjer á landi í þessum efnum, þá sje það á þjóðhátíð þeirri, sem fram á að fara að sumri.

Önnur rök hv. þm. Borgf. fyrir því, að frv. þetta væri óþarft, voru þau, að stj. hefði í hendi sinni að kúga eiganda nýja gistihússins, ef henni sýndist svo. En sje svo, fæ jeg ekki sjeð, að neinn skaði sje skeður, þó að frv. þetta nái fram að ganga. Það er þá í hæsta lagi meinlaust og gagnslaust. Annars skil jeg ekki, að mál þetta þurfi að valda neinum sjerstökum ágreiningi í þessari hv. deild, og þá síst hjá manni eins og hv. þm. Borgf., sem telur stjórnina geta beitt valdi og kúgað gistihúseigandann.