02.05.1929
Neðri deild: 59. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2879 í B-deild Alþingistíðinda. (1759)

123. mál, ráðstafanir vegna alþingishátíðarinnar 1930

Frsm. (Ólafur Thors):

Það eru aðeins örfá orð, sem jeg vil taka fram að þessu sinni. Jeg hefi orðið þess var síðan 2. umr. um þetta mál fór fram, að einstakir hv. þdm. hafa skilið till. fjhn. á þann veg, að hún bæri lítið traust til eiganda nýja gistihússins hjer í bænum. Hefir mjer jafnvel virtst sumir skilja álit n. svo, að hjer væri að ræða um ófyrirleitinn mann og fjárgráðugan, sem þyrfti sjerstakt aðhald. Jeg stend hjer upp eingöngu til þess að leiðrjetta þennan misskilning og lýsa því yfir, að þetta er mjög fjarri lagi. Till. fjhn. má engan veginn skilja á þennan veg. Þessi maður er þvert á móti þektur að allri sanngirni í viðskiftum, og það er mín skoðun, að þegar hann nú ræðst í að koma upp þessu myndarlega gistihúsi, þá sje það ekki aðeins af fjárgræðgi eða með gróðavon fyrir augum, heldur jafnframt af hinu, að hann álíti, að með því sje sóma landsins betur borgið. Þetta vildi jeg taka skýrt fram hjer, til þess að fyrirbyggja misskilning á till. n., og jeg get bætt því við, að einmitt vegna þess að um þennan sjerstaka mann er að ræða, mætti jafnvel segja, að till. n. sjeu óþarfar.