09.04.1929
Efri deild: 40. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2881 í B-deild Alþingistíðinda. (1768)

12. mál, loftferðir

Frsm. (Páll Hermannsson):

Samgmn. hefir haft frv. það, sem hjer liggur fyrir, alllengi til meðferðar. Veit jeg, að hv. þdm. skilja, að n. var umhent að gefa álit sitt á þessu máli, vegna þess, að flugferðir eru hjer alveg ný og óþekt atvinnugrein, og lágu þessir örðugleikar fyrst og fremst fyrir nefndinni. Auk þess hafði n. enga þá faglega þekkingu, er komið gæti henni að liði. Sjerfróðir menn voru engir við hendina, er n. gæti leitað til, og enda þótt margt útlendra rita sje til um þetta efni, var erfitt fyrir n. að fá þau. Þó fjekk n. dönsku loftferðalöggjöfina og bar hana saman við frv., en aðra löggjöf gat n. ekki útvegað sjer hjer.

Slík lög sem þessi hlýtur að vera allerfitt að semja, þar sem hjer er engin reynsla fyrir í þessum efnum, er hægt væri að styðjast við. Má þó að sjálfsögðu hafa hliðsjón af útlendum lögum og reynslu, enda mun það og hafa verið gert, þegar frv. þetta var samið. En þótt lagasetning þessi verði að teljast erfið, virtist okkur nm., að framkvæmdir laganna mundu verða enn erfiðari. Því er svo háttað um loftferðir sem atvinnuveg, að ekki verður hjá því komist við framkvæmd laganna að hafa mikið eftirlit með þeim. Ákvæði þessara laga um loftferðir snúa einnig að allverulegu leyti að eftirlitinu. Eins og áður hefir verið drepið á, eru hjer á landi engir fagmenn, er sjeu þess færir að aðstoða stj. við slíkt eftirlit. Eftir frv. á stj. að hafa eftirlit með flugferðunum, en það ákvæði áleit n., að erfiðast myndi til framkvæmda, af þeim ástæðum, er þegar hafa verið teknar fram. Nú mætti að vísu segja, að stj. gæti tekið útlenda fagmenn sjer til aðstoðar, en það fanst n. ekki hentugt, enda myndi það verða nokkuð dýrt, samanborið við það, hve mikið loftferðir yrðu stundaðar hjer á landi fyrst um sinn. Hinsvegar má vænta þess, að þegar farið væri að stunda flug hjer á landi, mundu fljótlega rísa upp innlendir fagmenn, er orðið gætu stj. til aðstoðar um framkvæmd laganna, og þegar fram í sækti, myndi eflaust myndast dálítill hópur manna, sem þá mætti velja úr. Þess vegna áleit n., þótt erfitt sje að semja þessi lög og framkvæma þau í fyrstu, að heppilegra mundi að setja þau, þótt þau sjeu ekki fullkomin, en að láta loftferðir eiga sjer stað í lögleysi og eftirlitsleysi.

Á þskj. 250 hefir n. borið fram nokkrar brtt., sem jeg nú skal gera frekari grein fyrir. — 1. brtt. er við 21. gr. frv. og er í því fólgin, að síðari málsl. þeirrar gr. falli burt. Sú breyt. stafar af því, að þessi málsl. hefir lent inn í frv. á skökkum stað, að því er n. virðist, og á ekki heima í þessari gr., enda hefir það verið viðurkent af þeim manni, er aðallega var við samningu frv. þessa riðinn.

2. brtt. n. er við 22. gr. í gr. er bæði talað um leyfi og samþykki stj., en þar sem þessi tvö orð eru notuð um sama hugtakið, þótti n. rjettara að samræma þetta þannig, að altaf væri notað orðið leyfi. Ennfremur er málsl. þeim, er feldur var niður úr 21. gr., bætt aftan við þessa gr., því að þar átti sá málsl. heima.

3. brtt. er við 23. gr. og er sama eðlis og orðabreyt. á 22. gr., sett inn orðið „leyfi“ í stað samþykkis.

Þá er 4. brtt., við 25. gr. Hún er að mestu leyti í því fólgin að færa til betra máls byrjun greinarinnar, en hún byrjar þannig: „Loftför mega lenda, fyrir utan í bæjum“. Vill n., að a-liður byrji þannig: „Annarsstaðar en í bæjum og kauptúnum“. Hefir n. bætt þar við orðinu kauptún, því að öðrum kosti hefði mátt skilja gr. þannig, að hjer væri aðeins átt við bæi þá, er öðlast hefðu bæjarrjettindi.

Annars skal jeg geta þess, að n. þótti málinu á frv. allvíða ábótavant, þótt hún rjeðist ekki í að breyta frv. að því leyti til mikilla muna.

5. brtt. er við 36. gr., og eru þar feld burtu nokkur orð úr frvgr. Síðari málsgr. þeirrar frvgr. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Atvinnu- og samgöngumálaráðuneytinu skal vera heimilt, til þess að greiða fyrir flugsamgöngum á Íslandi, að undanþiggja innflutningsgjaldi flugvjelar, varahluti, hreyfla, áhöld, bensín, bensól, olíu og annað, er til rekstrar flugvjela þarf“. Vill n. láta fella niður bensín, bensól og olíu, því að þær vörutegundir eru notaðar til fleiri atvinnuvega en flugferða, t. d. bensín, sem notað er til bifreiða og annara mótora. N. álítur, að tolleftirlit yrði svo erfitt, ef þessar vörutegundir yrðu undanþegnar tolli, að óforsvaranlegt væri að ganga inn á þá braut.

Annars eru brtt. n. þannig vaxnar, að jeg býst við, að allir hv. þdm. hafi áttað sig á þeim, og skal jeg því ekki fjölyrða um þær frekar, en aðeins óska þess fyrir hönd n., að frv. verði samþ. með þeim breyt., er n. hefir gert.