11.04.1929
Efri deild: 42. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2886 í B-deild Alþingistíðinda. (1776)

12. mál, loftferðir

Björn Kristjánsson:

Jeg hefi leyft mjer að bera fram fimm brtt. á þskj. 315, sem jeg ætla að fara um nokkrum orðum.

Fyrsta brtt. er í því fólgin að fella niður b.- og c.-lið 13. gr. frv., þar sem gert er ráð. fyrir, að stj. veiti loftförum leyfi til flugferða hjer, sem ætluð eru til hernaðar eða þessháttar.

Í aths., sem fylgir 13. gr., er það tekið fram, að flest lönd hafi slík ákvæði í hliðstæðum lögum, og get jeg skilið, að þetta geti verið nauðsynlegt í hernaðarlöndum og þar, sem fleiri lönd liggja saman, því að þar geta lögreglu- og tollmál fljettast saman, og jafnvel hernaðarmál. En mjer finst, að við Íslendingar, sem lýst höfum yfir ævarandi hlutleysi, megum ekki láta slík ákvæði sjást í loftferðalögum okkar, heldur sje í þeim aðeins gert ráð fyrir flutningum fólks, farangurs og pósts.

Önnur brtt. mín er afleiðing af hinni fyrri, þar sem einnig er gert ráð fyrir, að stj. veiti leyfisbrjef fyrir loftför „erlendra ríkja til hernaðar“.

Þriðja till. mín fer fram á, að leyfi til að reka hjer loftferðir sje ekki veitt einstöku ákveðnu fjelagi til lengri tíma en 10 ára.

Þó að þetta leyfi sje ekki beint nefnt einkaleyfi í frv., þá verður það þó svo í reyndinni, því að enginn fer að samkeppa við fjesterkt fjelag, sem stendur á bak við flugfjelagið hjer, um flugferðir hjer á landi. Til þess er landið of fáment og fátækt. Og ef rekstur fjel. reynist vel fyrstu 10 árin, þá er engin hætta á því, að það fái ekki leyfið framlengt. Jeg tel rjett, að þingið fari varlega í að semja við einstök fjelög um loftferðir um langan tíma í senn, og 20 ár tel jeg of langan tíma, enda virðist ekki þörf á að semja fyrir svo langan tíma, þar sem loftferðum var haldið hjer uppi síðasta ár án allra slíkra rjettinda. Og ef slík rjettindi eru veitt einu ákveðnu fjelagi í 20 ár, þá má líta á það sem fullkominn „monopol“ í jafnlangan tíma. Þetta tel jeg of langt farið, og því fremur, sem loftferðirnar mega teljast á tilraunastigi, svo að enginn getur sagt nú, hvernig flugferðum verður háttað framvegis eða hvernig flugvjelarnar verða. Það gæti farið svo, ef flugvjelarnar yrðu stórum bættar á næstu árum, að hið útlenda fjelag, sem hjer stendur á bak við, notaði okkur til að slíta út þeim vjelum, sem ekki þættu nothæfar erlendis.

Og þó að þessi stytting leyfistímans hefði einhvern lítinn drátt í för með sjer, sem vera mundi með öllu ástæðulaus, þá tel jeg litlu slept, ef loftferðirnar ættu að verða jafnófullkomnar eins og þær reyndust síðasta sumar, því að þær voru vægast sagt óboðlegar, og svo ljeleg var flugvjelin, sem notuð var, að það mátti telja mikið happ, að stórslys hlautst ekki af hvað eftir annað. Lengsta flugið var þó lengra en 21/2 tíma flug. Annars er það mín skoðun, að sennilega væri það rjettara að bíða með samninga um allar flugferðir þangað til við höfum ráð á að kaupa flugvjelar sjálfir. Og auðgert er að skapa menn til þess að stjórna þeim á tiltölulega stuttum tíma, þar sem einn ágætur flugmaður mun nú vera í þann veginn að ljúka fullnaðarprófi og annar efnilegur maður stundar nú flugnám.

En vitaskuld verður að setja einhverjar flugreglur, eins og frv. gerir, úr því flugferðir eru hjer byrjaðar.

Fjórða brtt. mín miðar að því að tryggja gott eftirlit með flugferðum. Og þó að það kosti ríkissjóðinn nokkrar þúsundir kr. á ári, þá er ekki hægt að komast hjá því, ef flugferðir eru að öðru leyti leyfðar. Og ekki ættu þeir menn að horfa í það, sem hafa mikla trú á því, að flugferðir komi Íslandi að verulegu gagni.

Við 2. umr. þessa máls bar hæstv. fjmrh. mest kvíðboga fyrir því, að ekki væri hægt að hafa neitt örugt eftirlit með loftferðum, og lái jeg honum það ekki. Það mundi verða bætt úr því, ef þessi brtt. mín yrði samþ. En vitanlega yrði sá eftirlitsmaður að vera óháður því fjelagi, sem loftferðaleyfið fær, og að hafa tekið fullnaðarpróf, svo að ekki þyrfti að saka hann um kunnáttuleysi.

Viðvíkjandi 5. brtt. vil jeg taka það fram, að flugvjelarnar eru eitt af nýjustu og hættulegustu hernaðartækjunum; er því stórhættulegt fyrir varnarlausa þjóð að veita fjelögum, þó að íslensk sjeu að nafninu, rjett til. flugferða ákveðinn langan tíma, nema svo sje áskilið — og það fyrirfram í lögunum — að ríkisstj. megi taka allar flugferðirnar í sína hönd og nota flugvjelar og áhöld fjelagsins eða fjelaganna fyrir sanngjarna leigu eftir mati, ef nágrannaþjóðirnar skyldu lenda í ófriði, sem hlutleysi voru og sjálfstæði gæti stafað hætta af. Eða þá að hafa leyfi til að banna allar flugferðir um tíma.

Ef ákvæði um þetta er sett inn í lögin, þá ætti það að sýna, að við gerðum þó það, sem í okkar valdi stæði, til þess að vernda hlutleysi okkar. Og ekki veitir af að vera varkár í þeim efnum.

Vænti jeg svo, að þessum brtt. mínum verði tekið vinsamlega af hv. d.