02.05.1929
Neðri deild: 59. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2892 í B-deild Alþingistíðinda. (1787)

12. mál, loftferðir

Frsm. (Gunnar Sigurðsson):

Frv. um loftferðir, sem hjer liggur fyrir, hefir fengið góðan undirbúning og er samið eftir evrópiskum lögum um þetta efni af dr. Alexander Jóhannessyni, formanni flugfjelagsins, í samráði við merkan þýskan flugmann, sem Walter heitir. Eins og kunnugt er, eru í vændum ekki einungis flugferðir hjer á landi, heldur líka, að erlendir flugmenn fljúgi yfir landið. Fjórir hafa ráðgert að gera það í sumar, og eru líkur til, að svo verði. Þess vegna er nauðsynlegt að fá löggjöf um þetta efni þegar í stað. Hefir því samgmn. lagt með frv. einróma.

Aðeins skal jeg geta þess, að n. hefir orðið sammála um að gera tvær smávægilegar breyt. Það stendur í frv., að heimilt sje með leyfi atvmrh. að flytja sprengiefni, hervopn og hernaðartæki með loftfeðrum. N. taldi rjett að taka alveg fyrir, að þesskonar áhöld væru flutt, og á það sjerstaklega við ef ófrið bæri að höndum. Sömuleiðis er tekið fram í 31. gr. frv., að menn eigi kröfurjett á útfararkostnaði þeirra, sem fyrir slysum kunna að verða. En í frv. eins og það lá fyrir er ákvæði um það, að jarðarfararkostnaður skuli miðast við lífskjör hins dána. Okkur þótti rjettara að hafa ekki ákvæði um þetta í lögunum; það má vita, að eitthvert tillit yrði tekið til þessa fyrir því.

Að svo mæltu vil jeg leggja til eindregið f. h. samgmn., að þetta frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir, svo að það geti orðið að lögum á þessu þingi.