04.03.1929
Efri deild: 13. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2903 í B-deild Alþingistíðinda. (1801)

7. mál, vitar, sjómerki o.fl.

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg vil sjerstaklega geta þess út af ummælum hv. 3. landsk. um að skylda skipseigendur til að taka þátt í kostnaði við að ná burtu skipsflökum, að hvorki í núgildandi lögum nje heldur í 7. gr. frv. er nefnd sú skylda skipseigenda. Jeg er auðvitað enginn lögfræðingur, en jeg hygg, að mjer sje óhætt að fullyrða, að þessi skylda hvíli alls ekki á eigendum skipanna, svo að að því leyti er um enga breyt. að ræða með frv. því, sem hjer liggur fyrir. Ef ástæða væri til þess að athuga þetta atriði, þá er það mál út af fyrir sig. Hinsvegar get jeg vitanlega fallist á það, að ef þetta er of óákveðið í frv. og þá einnig í núgildandi lögum, væri æskilegt, að það yrði lagað.

Aðalatriðið í þessu máli er, að það er ekkert vit í því að láta slíkar framkvæmdir fram fara án þess að tala eitt orð um það við ráðuneytið. Fyrir 3 eða 4 árum sökk skip hjer á höfninni í Reykjavík. Því var náð upp að nokkru og kostnaðurinn við að ná því upp nam tugum þúsunda. En ekki eitt orð var sagt við ráðuneytið, og reikningurinn kemur nú á hverri stundu. Svipað atvik kom fyrir á Siglufirði. Þar sökk skip, en „Fylla“ var fengin til þess að ná því upp, að tilhlutun ráðuneytisins. Jeg verð því að segja, að það er ekki rjett hjá hv. frsm., að ríkissjóður hafi ekki þurft að kosta ýkjamiklu til. Hann hefir þegar þurft að borga æðimikið fje, og jeg veit, að hann verður krafinn um meira.

Ákvæðið um að hafnarsjóðir greiði aðeins 300 kr. af kostnaði við að nema burt farartálma á höfnum, var ekki í stjfrv. 1911. Þar var gengið út frá því, að hafnarsjóðirnir ættu að borga allan kostnaðinn. Það voru þeir góðu menn, talsmenn hafnarsjóðanna úti um landið, sem komu ákvæðinu inn í lögin.

Jeg verð að segja, að mjer finst ekki nema rjettlátt, þó að allmikið komi í hlut þeirra hafnarsjóða, sem eiga miklar peningaeignir.

Jeg býst nú við, að mál þetta verði athugað á milli umr. Og vildi jeg mælast til þess, að hv. n. ætti tal við vitamálastjóra, áður en hún gengur endanlega frá till. sínum.