07.03.1929
Efri deild: 16. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2904 í B-deild Alþingistíðinda. (1804)

7. mál, vitar, sjómerki o.fl.

Frsm. (Erlingur Friðjónsson):

Eftir að máli þessu var frestað 4. mars tók sjútvn. það til nýrrar athugunar og flytur nú till. á þskj. 73, sem viðbótartill. við brtt. á þskj. 56.

N. átti tal um þetta við vitamálastjóra og leitaði álits hans á frv. og brtt. á þskj. 56. Eftir það viðtal sá n. ekki ástæðu til þess að hvika frá brtt. sinni. N. óskaði þess við vitamálastjóra, að hann gæfi henni upp tekjur helstu verslunarstaða, og varð hann við því. Má af því sjá, hvað hafnarsjóðir kauptúnanna myndu greiða, áður en til greiðslu úr ríkissjóði kæmi. Eftir till. n. er gert ráð fyrir því, að 1/2 tekjur ársins sjeu greiddar áður en ríkissjóður leggur til þessa verks, að koma burt farartálma. Hálfar tekjur ýmsra hafna hafa verið árið 1927 sem hjer segir:

Reykjavík kr. 366474,29

Hafnarfjörður .— 23050,35

Stykkishólmur — 5863,98

Ísafjörður — 30504,40

Siglufjörður — 16249,08

Akureyri — 33043,00

Húsavík — 912,83

Seyðisfjörður — 5147,08

Nes í Norðfirði. —2179,75

Eskifjörður — 791,35

Búðir í Fáskrúðsfirði.— 855,64

Vestmannaeyjar. — 91356,99

Gera má nú ráð fyrir því, að slys muni helst vilja til á höfnum stærstu kaupstaðanna. Og þar sem tekjur þeirra eru mjög háar, þá er varla um þau slys að ræða, sem valda farartálma, að tekjur þeirra dugi ekki til að greiða kostnað við að nema hann burt, og kemur þá ekki neitt til kasta ríkissjóðs. Mætti því segja, að viðbótartill. sje óþörf, því til kasta ríkissjóðs muni aldrei koma. En n. leit svo á, að brtt. hennar sjeu til bóta, að því leyti að orða þetta skýrar og gefa tryggingu, fyrir því, að ríkisstj. geti haft hönd í bagga, ef um mikið verk er að ræða, sem kostað getur mikið fje, svo sem getur verið um sokkin skip, og hafi þá yfirráð yfir framkvæmdum verksins.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta. Og þar sem jeg hefi í þessari umr. málsins talað eins og þingsköp leyfa, þá vona jeg, að meðnm. mínir taki til máls, ef þess þarf með.